„Líklega er mér ætlað að afhjúpa kerfið“

Húsið að Grundarstíg 10 í Reykjavík, sem nú nefnist Hannesarholt, er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Það var síðasta heimili Hannesar Hafstein, fyrsta íslenska ráðherrans, það er meðal fyrstu steinsteyptu húsanna í Reykjavík og þar hefur verið rekið menningarsetur, öllum opið, í nær áratug. Einn af eigendum hússins, Ragnheiður Jónsdóttir, segir að vel hafi gengið að ná þeim markmiðum sem lagt var upp með frá byrjun: Að opna húsið almenningi, að standa fyrir og hýsa uppbyggjandi viðburði þar sem menning, listir og fræði eiga stefnumót við fólk á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum. Einnig að hlúa að sögulegu samhengi með fortíð, nútíð og framtíð í hug, að eiga samleið með og taka þátt í eftir föngum sameiginlegum viðburðum og hátíðum í borginni og að þiggja andblæ að utan í anda Hannesar Hafstein. Húsið hefur á þessum tíu árum tengt saman fólk, listir og fræði, þar sem samtalið er í öndvegi og allir eru velkomnir.

Nútíminn birtir brot úr viðtalinu við Ragnheiði í samstarfi við VIkuna en hægt er að lesa allt viðtalið með áskrift hér!

Ragnheiður segir að hún og eiginmaður hennar, Arnór Víkingsson, hafi verið eins og leidd inn í húsið fyrir tilviljun í nóvember 2007. Þau keyptu húsið ásamt börnum sínum, til þess að gera það upp og opna almenningi. „Húsið var lúið og við vildum bjarga því. Ég hafði fengið arf úr fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað þegar ég var þriggja ára og rekið í 44 ár og þess vegna gat ég ráðist í þetta verkefni.“ Eftir gagngerar endurbætur og tyrfinn leyfaferil var Hannesarholt opnað 8. febrúar 2013.

Hjónin hafa staðið straum af kostnaði við húsið og starfsemi þess frá upphafi. Þar kom að það gekk ekki lengur. Hannesarholt passaði ekki inn í viðspyrnustyrki vegna Covid-faraldursins, viðræður við yfirvöld skiluðu engu samkomulagi og Hannesarholti var lokað sumarið 2021. Framtíðin er enn óljós, en það var mörgum fagnaðarefni þegar Hannesarholt var opnað aftur haustið 2022. „Það kom óvænt opnunarstyrkur frá góðgerðarsjóði í New York, sem var stofnaður 2015 og styrkir fyrst og fremst samfélagslega mikilvæg verkefni. Fulltrúi sjóðsins kom hingað og heillaðist af því sem við höfum verið að gera í Hannesarholti af eigin rammleik, fyrir eigin reikning. Hún tengdi strax og það var ævintýralegt að hitta hana. Við erum óendanlega þakklát og stolt yfir þessum liðsauka.“

Ragnheiður er með BA-gráðu í bókmenntafræði og ensku og kennsluréttindi frá HÍ. Meistaragráðu í enskum bókmenntum og doktorspróf í menntunarfræðum frá University of Wisconsin, Madison. Hún segir að menntun sín hafi nýtst vel í starfinu og að hún hafi alltaf verið upptekin af velferð þjóðarsálarinnar. Þeim hjónum hafi fundist Íslendingar villast af leið á uppgangsárunum fyrir hrunið 2008, nokkuð sem líklega margir geta tekið undir. „Það fór saman að bjarga þessu húsi og opna það almenningi, en staðreyndin er sú að við höfum ekki endilega aðgang að þessum hluta menningararfsins sem felst í húsunum frá steinsteypuklassíkinni, þau eru í einkaeign og fólk býr í þeim.“

Verkefni sem kom á réttum tíma

Ragnheiður segir að þetta verkefni hafi komið inn í líf þeirra á eina tímapunktinum sem hún hefði getað tekist á við það. Það hafi verið ævintýri líkast að byggja upp starfið í Hannesarholti og óendanlega gefandi, þótt það hafi líka tekið á. „Ég valdi kennarastarfið til að bæta heiminn, kenndi meðal annars í Borgarholtsskóla, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Kennaraháskóla Íslands, og hér í Hannesarholti finnst mér ég hafa unnið við að bæta samfélagið. Það hefur gert þetta þess virði að standa í því. Frá fyrsta augnabliki fannst mér þessu hafa verið stýrt, við værum ekki ein í þessu.“

Margir halda að hún sé afkomandi Hannesar Hafstein, enda heitir hún Ragnheiður eins og kona hans. En það er ekki svo. „Eina tenging mín við Hannes er sú að foreldrar mínir og amma og afi seldu kjallarann í fjölskylduhúsinu sem þau byggðu 1963 í Grænuhlíð 22 og keyptu fyrir andvirðið bát sem hét Hannes Hafstein. Ég sá kíki með nafninu hans í stýrishúsinu hjá Haraldi afa mínum þegar ég var 8 eða 9 ára gömul og hef þess vegna spurt hann út í málið. Ég man ekki nákvæmlega hvernig afi svaraði, en orð hans innprentuðu í mig virðingu fyrir Hannesi Hafstein og þakklæti. Meira var það ekki, en mér þykir óumræðilega vænt um þessa tengingu. Þakklæti er grunntilfinning og án hennar erum við fátæk. Þegar ég gekk inn í lúið húsið hans kallaði það á mig að bregðast við.“

Tengir kynslóðirnar saman

Hverning finnst þér hafa tekist til? „Miklu betur en ég þorði nokkurn tíma að vona. Allan tímann hefur verið einhver blessun yfir þessu verkefni. Ég væri ekki að segja satt ef ég segði að þetta hafi ekki verið erfitt, þetta hefur tekið á en verið miklu meira blessun. „Öll mín sýn hefur verið með heildina í huga. Hannesarholt byggir á þessari þvegfaglegu hugsun sem býður okkur að koma saman og velta fyrir okkur hvert við förum eða viljum fara. Við sækjum söguna hér og hlustum hvert á annað í nútíðinni. Að tengja saman fortíð, nútíð og framtíð er það sem allt snýst um í Hannesarholti, að tengja saman kynslóðirnar og nýta sameiginlega reynslu okkar.

Ég er líka þakklát fyrir að Hannesarholt hefur stækkað sviðið fyrir samborgarana og gefið mörgum tækifæri til að stíga á stokk og deila andlegri auðlegð sinni með samfélaginu. Ýmsir hafa komið fram á viðburðum sem gera það ekki alla jafna og þannig hlúir Hannesarholt að alþýðumenningu. Myndlistarmenn sem hafa sýnt í húsinu hafa verið á aldrinum 23 til 92 ára og spannað allt frá því að vera með sínar fyrstu sýningar til sinna síðustu og sama er að segja um tónlistarmenn, þeir hafa verið á öllum aldri og á öllum stigum,“ segir Ragnheiður.

„Líklega er mér ætlað að afhjúpa kerfið“

Blaðamaður víkur talinu að skattamálum fjölskyldu Ragnheiðar, sem mikið var fjallað um í fjölmiðlum á annan áratug og hvaða áhrif það hafi haft á hana og starf hennar. „Ég vil engum svo illt að óska honum að lenda í slíkri útreið. Það rænir fólk lífi, heilsu og lífsgæðum og ekki bara þeim sem lenda í slíkri hakkavél, heldur líka fjölskyldum þeirra. Vendipunkturinn í þessu máli fyrir mér var nokkrum árum eftir að það hófst þegar mér fannst að ríkisvaldið hefði af ásetningi rangt við, það væri ekki verið að rannsaka hvað gerðist og komast að sannleikanum, heldur hefði verið búin til saga og við sett þar inn sem persónur og leikendur. Mér fannst að það ætti að „sakfesta okkur“ með góðu eða illu, réttu eða röngu. Ég bjó sem sagt til nýtt orð sakfesta – um þessa upplifun.

Á tímabili fannst mér að þarna væri komin skýringin á því hvers vegna ég væri að lenda í þessu, mér væri ætlað að afhjúpa kerfið. Líklega hefði ég sóað ævinni í það, hefði orðið þráhyggjunni að bráð og væri nú lokuð inni einhvers staðar. Í rauninni bjargaði Hannesarholt geðheilsu minni. Ég stóð þar vaktina daga langa og sá ekki útúr augum fyrir önnum. Þess vegna hafði ég ekki tíma í að eltast við kerfið. Ég þakka fyrir það í dag.“

„Það sem sveið mest var að fjölmiðlar sukkuðu í þessu máli án afláts. Vitnuðu hægri-vinstri í óvandaðan „frétta“flutning og skrumskældar útgáfur af málavöxtum og svifust einskis. Þegar svo sýknudómur kom í máli okkar systra eftir tíu ára málavafstur var lítill áhugi fyrir að segja frá því. Mér fannst ég svikin. Trúði ekki að menn hefðu ekki manndóm í sér til að leiðrétta þær rangfærslur sem fjölmiðlar þeirra hefðu borið á borð fyrir fólk síendurtekið. Ég verð alveg að viðurkenna að ég þarf að vinna í því að bægja frá biturð og missa ekki trúna á fólk og stofnanir. Svona reynsla skilur eftir sig fótspor í sálarlífi fólks, í samfélaginu og á netinu. Það var smá sárabót að dómarinn í máli okkar systra gagnrýndi harðlega framgang embættis saksóknara. Það gaf mér von um að kannski gæti kerfið lært af og batnað. Bræður okkar þurftu að þola þetta í þrettán ár áður en mál þeirra voru felld niður. Það er drjúgur hluti úr ævi manneskju.“

Texti: Ragnheiður Linnet – Myndir: Rakel Garðarsdóttir
Brot úr ítarlegra viðtali Vikunnar.

Auglýsing

læk

Instagram