Már Gunnarsson hlaut Kærleikskúluna 2019

Már Gunnarsson hlaut í dag Kærleikskúluna 2019 en stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra velur handahafa hennar ár hvert. Þetta kom fram á vef Vísis.

Már sem er tvítugur að aldri er bæði tónlistarmaður og afreksmaður í sundi og lætur blindu ekki stöðva sig í að ná markmiðum sínum. Hann fékk Kærleikskúluna afhenta á Kjarvalsstöðum í morgun.

„Ég lít ekkert á sjálfan mig sem fatlaðan. Af hverju ætti ég að gera það? Ég geri bara það sem mér þykir skemmtilegt og það nægir mér,” segir Már.

Að sögn styrktarfélagsins er Már einstök fyrirmynd og sló hann til að mynda tíu Íslandsmet á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi nú í haust auk þess sem hann vann til bronsverðlauna í 100 metra baksundi. Hann stefnir á gullverðlaun á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó árið 2020.

Már sagði viðstöddum skemmtilega sögu frá lokum sundæfingar í vikunni: “Það kemur til mín ungur piltur og segir, Már, þú ert alveg frábær náungi. Þegar þú fæddist fattaði guð að hann hefði gert einhver mistök við augun þannig að hann ákvað að gera allt hitt fullkomið í staðinn,” sagði Már og uppskar innileg hlátrasköll viðstaddra.

Eins og áður sagði er Már ekki einungis framúrskarandi íþróttamaður, heldur einnig frábær tónlistarmaður og í meðfylgjandi myndskeiði má sjá og heyra frá því þegar hann tók frumsamið lag fyrir viðstadda í tilefni dagsins.

Auglýsing

læk

Instagram