„Mér finnst við eiga leikmenn inni sem geta gert meira“

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari fór yfir leik Íslands og Ungverja strax sömu nótt og ætlar að læra af þeim leik fyrir leikinn gegn Slóvenum í dag.

„Svona eru þessar íþróttir og það er það sem gerir þær spennandi. Ég er búinn að skoða þetta og í raun eru það aðeins síðustu 15 mínúturnar sem eru arfaslakar,“ segir Guðmundur .

„Við munum ekki dvelja við Ungverjaleikinn heldur læra af honum og mæta tvíefldir í leikinn gegn Slóvenum. Við getum ekki kvalið okkur á tapinu lengur. Við megum ekki gleyma að það var afrek að komast upp úr riðlinum en það gerðum við ekki á síðustu tveimur Evrópumótum.“

„Þetta er ekkert ósvipað verkefni og gegn Ungverjum. Slóvenar eiga einn besta miðjumann heims í Dean Bombac. Þeir eru með mjög góða hægri skyttu í Jure Dolenec. Þeir vilja sækja á vörn og klippa. Svo eru þeir með stóran og þungan línumann. Vörnin hjá þeim er með tvo hávaxna miðjumenn.“

Aðspurður segist Guðmundur ekki óttast að menn verði þreyttir.

„Ég er ekki hræddur við það. Frekar að við höldum dampi sóknarlega. Mér finnst við eiga leikmenn inni sem geta gert meira.“

Auglýsing

læk

Instagram