Músíktilraunir 2022

Skráning í fullum gangi fyrir Tónlistarhátíðina Músíktilraunir!

Umsóknarfrestur fyrir þátttöku á Músíktilraununum hefur verið framlengdur til 14. mars, til að koma til móts við þá aðila sem ekki voru búnir að gera demó vegna veikinda. Enn eru örfá pláss laus fyrir bönd eða einstaklinga til þátttöku. Öll eru velkomin til að nýta sér studíóaðstöðu Hins Hússins og sérfræðikunnáttu starfsfólks hússins. Hægt er að bóka tíma fyrir demóupptöku á hitthusid@hitthusid.is og umsóknarform til þátttöku á tilraununum er á www.musiktilraunir.is.

Músíktilraunir fagna nú fjörtíu ára stórafmæli. Keppnin hófst árið 1982 og er ein elsta tónlistarhátíð og keppni landsins. Vegna góðrar þátttöku og orðspors Músíktilrauna má finna vini keppninnar víða í samfélaginu og innan tónlistariðnaðarins. Keppnin er vel þekkt af fagfólki sem sjálft hefur tekið þátt á einhverjum tímapunkti. Hátíðin er stökkpallur fyrir ungt tónlistarfólk þar sem það fær tækifæri til að spila við góðar aðstæður, kynnast öðru tónlistarfólki og freista þess að vinna til veglegra verðlauna sem getur hjálpað þeim í sinni tónlistarvegferð. Bílskúrsbönd, brasarar, tónlistarskólabönd eða sólósnillingar eru öll velkomin í Músíktilraunir en algengt er að hljómsveitir hafa verið stofnaðar sérstaklega til þátttöku í keppninni en þar má t.d. nefna Agent Fresco, Mammút, Vök og Of Monsters and Men.

Undankvöldin verða haldin þann 26., 27., 28. og 29. mars í Norðurljósasal Hörpu. Úrslitakvöldið fer fram laugardaginn 2. apríl en þar etja þær sveitir kappi sem hafa komist upp úr undanúrslitum. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, auk einstaklingsverðlauna, viðurkenningu fyrir textagerð og hljómsveit fólksins, sem er valin í símakosningu.

Eins og áður segir þá er umsóknarfresturinn í Músíktilraunir  til 14.mars og sótt er um www.musiktilraunir.is. „Fyrstir koma fyrstir fá“.

Auglýsing

læk

Instagram