Óánægja með hækkun gjaldskrá bílastæða í Reykjavík – Álögur á bíleigendur alltaf að verða meiri

Breytingar á gjaldskyldu og gjaldskrá bílastæða Reykjavíkurborgar tóku gildi um mánaðamótin september/október. Í kjölfarið voru tæplega 300 skiltum í borginni breytt, en tillaga þessa efnis var samþykkt í um­hverf­is- og skipu­lags­ráði í lok júní á þessu ári.

Með breytingunum hækka bíla­stæðagjöld á gjaldsvæði 1 um 40% í miðborg Reykja­vík­ur. Þá verður tími gjald­töku lengd­ur frá 18 til 21 á virk­um dög­um og laug­ar­dög­um. Eins verður tek­in upp gjald­skylda á sunnu­dög­um á gjaldsvæðum 1 og 2. Gjaldskráin á svæði 1 var 430 krónur en hækkar í 600 krónur. Til glöggvunar er á vissum svæðum í vesturbæ gjaldskylda til 21 á kvöldin. Það kostar því einstakling 220 kr. á klukkutíma að skreppa þangað í heimsókn. Þessi ákvörðun veldur íbúum og gestum mikilli óánægju og má segja að um hreina aðför sé að ræða.

Mikillar óánægju gætir með þessa hækkun sem og finnst mörgum ansi langt seilst í vasa bifreiðaeigenda og þá ekki síst á þeim tímum þegar verðbólga er í hæstum hæðum. Álögur á bíleigendur eru alltaf að verða meiri.

Miðbænum til háborinnar skammar

Kaupmaður við Laugaveg sagði í samtali við fib.is í sumar að framkoma meirihlutans í borginni í garð kaupmanna í miðbænum til háborinnar skammar.

,,Ef maður horfir á þetta frá samkeppnissjónarmiðum þá eru á sama tíma ókeypis bílastæði í Kringlunni og Smáralind. Maður getur alveg hugsað í beinu framhaldi hvaða erindi á almenningur lengur í miðborgina. Bara kannski til eins að borga meira í stöðumælagjöld sem í dag er ekkert orðið annað en aukaskattur. Þessi hækkun bitnar helst á rótgrónum kaupmönnum í miðbænum sem stuðla að íslenskri verslun. Þetta gæti allt eins orðið enn einn naglinn í kistu íslenskrar verlsunar sem er á faraldsfæti úr miðbænum,“ sagði Fannar Gunnarsson í gleraugnamiðstöðinni Profil-Optik við Laugaveg.

Rakel Elíasdóttir, deildarstjóri reksturs bílastæðasjóðs Reykjavíkur, var innt eftir rökum og ástæðum fyrir þessari hækkun.

Í svari við fyrirspurn FÍB kemur fram að Borgarráð samþykkti þann 29. júní sl. tillögu að breytingum á gjaldskyldu fyrir bílastæði Reykjavíkurborgar sem komu til framkvæmda núna 1. október sl. Gjaldskylda á bílastæðum Reykjavíkur hefur þann tilgang, fyrir utan að standa straum af kostnaði við rekstur og viðhald stöðureita, að framfylgja markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur og stuðla að fjölbreyttri notkun bílastæða í borgarlandi með því að stýra eftirspurn eftir bílastæðum og styðja þannig við þjónustuaðila, gesti og íbúa. Hin samþykkta tillaga byggir á talningum á nýtingu bílastæða sem fóru fram haustið 2022 í samræmi við verklagsreglur þar um, en verklagsreglurnar ganga út frá því að ákjósanleg bílastæðanýting í sérhverri götu eða lóð í eigu borgarinnar sé að jafnaði á bilinu 60-85%. Ef nýting mælist undir 60% er verð lækkað í næsta verðflokk skv. gjaldskrá, en ef bílastæðanýting mælist yfir 85% er verð hækkað og/eða settar kvaðir um hámarkstíma.

Ekki verið að takmarka aðkomu neins að málinu

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, sagði á sínum tíma þegar hækkanirnar voru kynntar í sumar að um sé að ræða breytingu sem sé hluti af samþykktu verklagi. Hún benti á að allir flokkar hafi aðkomu að borgarráði og umhverfis- og skipulagsráði, því sé ekki verið að takmarka aðkomu neins að málinu.

Í þessari umræðu er vert að benda á að tvö gjaldsvæði eru í og við miðbæ Akureyrar, P1 og P2. Gjald fyrir hverja klst. er 200 kr. á svæði P1 og 100 kr. á svæði P2. Gjaldskyldutími er sá sami á báðum gjaldsvæðum, frá kl. 10:00 – 16:00 virka daga.

Í samanburði við aðrar höfuðborgir á Norðurlöndum kostar klukkutími svipað í miðborgum Oslóar og Stokkhólms. Kaupmannahöfn sker sig úr í þessum samanburði en þar kostar klukkustundin rúmar 800 krónur á virkum dögum. Gjaldið hins vegar á kvöldin í Kaupmannahöfn er rúmar 300 krónur. Hins vegar víðar á Jótlandi eru bílastæðagjöld lægri eða um 450 krónur klukkutíminn eins og reyndin er í Árósum.

 

Lenging á gjaldskyldutíma

,,Niðurstöður talninganna sýndu sem fyrr fram á mikla og stöðuga nýtingu bílastæða á flestum gjaldsvæðum og mikla nýtingu utan gjaldskyldutíma. Nokkur hluti gatna innan gjaldsvæðis P1 mælist enn með yfir 85% nýtingu og gefa niðurstöður talninga því tilefni til að breyta gjaldskrá til þess að geta betur stýrt eftirspurn eftir bílastæðum í samræmi við ofangreint. Þá sýndu niðurstöður talninganna, eins og fyrri ár, að bílastæði við götukanta á gjaldsvæðum P1 og P2 eru að jafnaði fullnýtt á kvöldin á meðan nægilegt framboð er í bílahúsum borgarinnar. Talningar sýndu að nýtingin jókst eftir því sem leið á kvöldið og því var lenging á gjaldskyldutíma á þeim gjaldsvæðum lögð til. Á þeim svæðum má finna mestan þéttleika af starfsemi sem er opin á kvöldin og götur nálægt bílahúsum, en með gjaldskyldu aukast líkurnar að sama skapi á því að ökumenn kjósi að leggja í bílahúsum borgarinnar og þar með líklegra að íbúar fái stæði við heimili sín.

Niðurstöður talninga síðustu ára hafa einnig sýnt að bílastæðanýting mælist ávallt hærri á sunnudögum en á laugardögum og yfir viðmiðunarmörkum samkvæmt verklagsreglum og því lögð til gjaldskylda á sunnudögum á gjaldsvæðum P1 og P2. Innleiðing gjaldskyldu á sunnudögum styður betri stýringu á nýtingu bílastæða og stuðlar jafnframt að betri nýtingu bílahúsa, eins og að framan greinir, og eykur þannig lýkur íbúa á að finna stæði í nálægð við heimili sín.

Samhliða þessum breytingum var felld niður gjaldskylda á gjaldsvæði P3 á laugardögum í samræmi við verklagsreglur,“ segir í svari Rakelar Elíasdóttur, deildarstjóra reksturs bílastæðasjóðs Reykjavíkur.

Yfirlit yfir breytingarnar

Á gjaldsvæði P1 hækkar gjald í 600 kr/klst, en gjaldið var áður 430 kr/klst. Þar verður nú einungis heimilt að leggja í þrjár klukkustundir í senn.

Gjaldskyldutími á gjaldsvæðum P1 og P2 verður lengdur til klukkan níu á kvöldin, bæði á virkum dögum og á laugardögum.

Að auki verður tekin upp gjaldskylda á gjaldsvæðum P1 og P2 milli klukkan tíu á morgnanna og níu á kvöldi á sunnudögum.

Gjaldskylda verður ekki á gjaldsvæði P3 á laugardögum.

Annað er óbreytt frá gildandi tilhögun gjaldskrár og gjaldskyldu.

Handhafar stæðiskorts hreyfihamlaðra leggja gjaldfrjálst í bílastæði hvort sem þau eru merkt hreyfihömluðum eða ekki og gildir hámarkstími á gjaldsvæði P1 ekki fyrir þá.

 

 

 

Auglýsing

læk

Instagram