today-is-a-good-day

Páll Óskar: „Þetta er lélegur díll, þetta er loforð sem ég ætla ekki að efna“

Skemmtikrafturinn Páll Óskar Hjálmtýsson er hundraðasti gestur Þorsteins Einarssonar í hlaðvarpinu Karlmennskan en þar er farið yfir ýmislegt í tengslum við hinseginleikann, karlmennsku og margt fleira. Á meðal umræðna segir Páll Óskar frá því hvernig foreldrar hans brugðust við þegar þau komust að því að hann væri samkynhneigður en viðbrögð þeirra voru, að sögn skemmtikraftsins, „kolvitlaus“.

„Ég og mamma vorum ein heima, hún passaði upp á það að við værum ein. Þá „feisaði“ hún mig, horfði djúpt í augun á mér og hún heldur á brúnu umslagi í hendinni sem hún var búin að opna með bréfahníf. Hún „feisar“ mig og spyr: Páll! Hvað er þetta?

Ég „feisa“ hana bara á móti og segi: Mamma, þetta er fréttabréf Samtakanna 78, félags homma og lesbía á Íslandi. Hún spyr þá: Og ert þú slíkur? Og ég segi bara: Já. Ég man að ég ljómaði í framan bara við það að segja orðið já og að segja henni það, þá var þungu fargi af mér létt. Þetta augnablik entist í eina sekúndu vegna þess að um leið byrjaði mamma að sýna öll kolvitlausu viðbrögðin.“

Móðir hans leit undan, horfði ekki í augun á honum, gekk inn í stofu, settist niður, horfði í gaupnir sér, byrjaði að prjóna og tautaði með sjálfri sér. „Ég vissi að eitthvað væri að, ég vissi að eitthvað hefði komið fyrir, fæðingin þín gekk svo erfiðlega fyrir sig,“ sagði hún og svo komu spurningarnar. „Hvaða fólk ert þú að umgangast, hvaða helvítis pakk ert þú að umgangast, hver er búinn að smita þig af kynvillu, hvernig veistu hvað þú vilt, þú ert bara 17 ára gamall, hvernig veistu hvað þú vilt?“

Á endanum sagði móðir hans að hann yrði að lofa sér einu, að segja pabba sínum ekki frá þessu. „Þá „feisa“ ég mömmu aftur og segi: Mamma, nei. Þetta er lélegur díll, þetta er loforð sem ég ætla ekki að efna.“

Páll Óskar sagði svo við mömmu sína að honum væri „skítdrullusama“ um hvað pabba hans myndi finnast um þetta allt saman. „Samskiptin við pabba voru ekkert búin að vera upp á marga fiska, sérstaklega frá unglingsárunum.“

Pabbi hans komst svo að því að sonur sinn væri hommi í gegnum helgarblað Þjóðviljans. „Pabbi hljóp upp og niður allar hæðir í Útvegsbankanum þar sem hann vann og safnaði saman öllum Þjóðviljanum og setti í tætarann. Pabbi keyrði siðan i allar sjoppur í Vesturbænum og Miðbænum og Reykjavík og nágrenni, keypti allan Þjóðviljann sem hann gat og setti i tætarann.”

Páll Óskar er búinn að fyrirgefa foreldrum sínum fyrir þessi vitlausu viðbrögð en hann segir að það hafi verið erfitt verkefni.

Auglýsing

læk

Instagram