Auglýsing

Ráðherra veitir viðurkenningar fyrir umhverfismál

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, veitti í gær Íslandsbanka Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Við sama tækifæri voru nemendur í Foldaskóla, Öldutúnsskóla og Húsaskóla útnefndir Varðliðar umhverfisins.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Íslandsbanka sem handhafa Kuðungsins kemur fram að bankinn hafi skapað jákvæða hvata til þess að flýta fyrir fjárfestingu í grænum lausnum með ábyrgum lánveitingum, fjárfestingum og innkaupum.

Íslandsbanki hafi í sjálfbærnistefnu sinni einsett sér að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda tengdri starfsemi sinni og ráðist í fjölmargar aðgerðir til að ná því fram. Þannig hafði bankinn til að mynda skipulagt fjarvinnu starfsmanna áður en heimsfaraldur Covid-19 skall á. Kolefnisspor reksturs bankans hafi enn fremur lækkað verulega óháð áhrifum kórónuveirufaraldursins.

Íslandsbanki var fyrstur íslenskra banka til að birta sjálfbæran fjármálaramma og gefa út sjálfbær skuldabréf og kemur fram í rökstuðningi dómnefndar að birting og innleiðing sjálfbærs fjárlagaramma hafi verið mikilvægt framlag bankans á sviði sjálfbærni á árinu, því með grænum útlánum hafi verið dregið úr losun um 5.800 tonn CO2 , sem er þrettánfalt kolefnisspor rekstursins.

Hrósar dómnefndin Íslandsbanka sérstaklega í rökstuðningi sínum fyrir að hafa fyrstur íslenskra banka sett sér það markmið að ná fullu kolefnishlutleysi lána- og eignasafnsins fyrir árið 2040. Er það mat dómnefndar að breytt streymi fjármagns sé ein áhrifaríkasta leiðin til að ná árangri í loftslagsmálum og því er bankinn hvattur til að halda áfram á þessari braut.

Það er listamaðurinn Unndór Egill Jónsson sem bjó til Kuðunginn að þessu sinni. Gripurinn er unnin úr kræklóttu íslensku birki og hnotu og sýnir á glettinn hátt samspil náttúru og iðnaðar og hvernig hjólin fara að snúast, þegar vel tekst til og sambandið er með því móti að hvert styður annað.

Íslandsbanki öðlast rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.

Í dómnefnd sátu Sigurður Thorlacius, formaður, Sara Dögg Svanhildardóttir, f.h. Samtaka atvinnulífsins, Heimir Janusarson f.h. Alþýðusambands Íslands og Auður Önnu Magnúsdóttir, f.h. félagasamtaka á sviði umhverfisverndar.

Nemendur í 5., 6. og 7. bekk Foldaskóla unnu verkefnið Sjálfbærni – náttúra – sköpun sem fangar umhverfismálin á fjölbreyttan hátt. Nemendurnir unnu með mismunandi hætti að því að auka skilning sinn á samhengi neyslu, samfélags og náttúru jarðar og hvernig þeir geti haft áhrif til góðs. Meðal verka barnanna, sem voru til sýnis á Barnamenningarhátíð nú í vor, voru plastskúlptúrar og listaverk og nýir hlutir úr ónothæfum gallabuxum.

Að mati valnefndar er verkefnið vel til þess fallið að hvetja börnin til góðra verka í umhverfisvernd og sjálfbærni, sem og til að breyta hegðun nemenda og annarra til hins betra.

Nýtt samfélag, verkefni nemenda unglingadeildar í Öldutúnsskóla, hlaut einnig viðurkenningu. Í verkefninu unnu nemendur saman í hópum að því að  búa til nýjan samastað fyrir mannkyn, eftir að jarðarbúa höfðu þurft að flýja jörðina vegna loftslagsbreytinga. Markmið verkefnisins var að nemendur fyndu leiðir til þess að varðveita auðlindir hinnar nýju jarðar fyrir komandi kynslóðir.

Segir valnefnd í úrskurði sínum að verkefnið sé vel til þess fallið að opna augu nemenda og annarra fyrir þeim áskorunum sem loftslagsbreytingar fela í sér og hvetja til frekari umræðu og lausnamiðaðra áherslna við að taka á áskorunum framtíðar.

Loks voru nemendur í 6. og 7. bekk Húsaskóla einnig útnefndir Varðliðar umhverfisins vegna verkefnis sem þau unnu árið 2020, en það ár féll Varðliðakeppnin niður vegna kórónuveirufaraldursins.

Í verkefninu Fólk á flótta, voru aðstæður flóttabarna og vandinn sem þau standa frammi fyrir skoðuð. Nemendur Húsaskóla settu sig m.a. í spor barna á flótta með gerð borðspila þar sem þau þurftu að takast á við þær áskoranir og erfiðleika sem þeim mæta.

Er það mat valnefndar að verkefnið sé vel til þess fallið að opnað augu nemenda og annarra fyrir þeim margvíslegu áskorunum sem þjóðir heims standa frammi fyrir, m.a. vegna áhrifa loftslagsbreytinga á fjölbýl svæði víða um heim, en búast má við að loftslagsflóttamönnum eigi eftir að fjölga verulega á komandi árum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing