today-is-a-good-day

Reynir Trausta og Bjössi í World Class féllust í faðma í skötuveislu

Reynir Traustason er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Reynir, sem er einn reyndasti blaðamaður Íslandssögunnar, hefur ritstýrt fjölmörgum fjölmiðlum og oft komist í fréttir fyrir að lenda upp á kant við fólk vegna fréttaflutnings. Reynir var rekinn úr Sjálfstæðisflokknum eftir fréttaflutninginn af Árna Johnsen.

,,Ég hef oft verið flokkaður sem ólíkindatól af valdhöfum sem mér finnst góð einkunn. En ég hef aldrei verið í neinum öðrum flokki en Sjálfstæðisflokknum. Pabbi var í honum og afi, þannig að það var ekki um neitt annað að ræða en að ég væri í Sjálfstæðisflokknum líka. En þeir afskráðu mig úr flokknum eftir Árna Johnsen málið. Það er stundum talað um að það sé erfitt að komast úr stjórnmálaflokkum en ég þurfti að berjast fyrir því að komast aftur inn af því að ég vildi fá aðgang að hlutum. Sjálfstæðisflokkurinn er með fallega stefnu varðandi einstaklingsframtakið og annað í þeim dúr en hann hefur ekkert fylgt þeirri stefnu í mörg ár.“

Hann segir í þættinum frá því þegar hann og Bjössi í World Class hittust nýlega eftir opinberar deilur.

,,Ef menn hugsa til baka til blaðamanna og ritstjóra sem hafa verið reknir þá er verðmiðinn á mér 10 milljónir. Bjössi í World Class borgaði 10 milljónir til að komast inn í DV til að geta látið reka mig. Þar með komust andófsöflin í meirihluta og hann sagðist opinberlega vilja losna við mig. Það sem hafði farið verst í hann var hliðarmál vegna Árna Johnsen málsins sem hann tengdist og við fjölluðum um. En við Bjössi hittumst í skötuveislu fyrir ekki svo löngu og það fraus allt þegar við mættumst, svolítið eins og í sögunni um Þyrnirós. En svo féllumst við lauslega í faðma og ég tók eina ,,Selfie“ af okkur og mér þykir vænt um Bjössa eins langt og það nær. Ég bar allavega virðingu fyrir því að hann kom hreint fram og sagði bara beint út að hann vildi losna við mig. Það er mun betra en þegar þetta gerist á bak við tjöldin og menn eru stungnir í bakið.“

Reynir ræðir í þættinum um erfiða stöðu blaðamanna á Íslandi sem eru óþægilegir við valdhafa vegna smæðar landsins.

,,Þú ert með menn sem hafa skúbbað feitt, gert mjög góða hluti og verið í eldlínunni, eins og Helgi Seljan og Jóhannes Kr. og fleiri og fleiri. En það er ráðist á þessa menn og þeir verða svona eins konar ,,persona non grada“ þegar skjólinu sleppir. Segjum nú sem svo að Sjálfstæðisflokknum takist að koma RÚV undir sig og Helgi yrði rekinn, hvert á hann að fara? Jóhannes Kr. hvert á hann að fara þegar hann er búinn að gera umfjöllun sem er vond fyrir valdhafa? Ísland er lítið land og mér leið á tímabili eins og eina leiðin framhjá þessu væri að eiga fjölmiðilinn sjálfur og á tímabili var ég stærsti einstaki eigandinn á DV.“

Reynir segir í þættinum frá tímabilinu þegar hann var farinn að óttast um líf sitt vegna offitu og heilsuleysis og ákvað að taka sig í gegn.

,,Ég er reyndar líklega búinn að létta mig um 500 kíló samanlagt í gegnum tíðina. En þegar ég ákvað að taka mig í gegn fyrir alvöru þá gerðist það eftir ein áramótin þegar ég var orðinn 140 kíló. Ég hafði hætt að reykja og bætti í kjölfarið á mig 30 kílóum. Ég átti flottustu pípurnar í bænum og hafði reykt mikið en ég fór með dóttur minni út í garð og við grófum holu og ég jarðaði pípurnar og við fórum saman með hugvekju um að ég væri hættur að reykja. En í kjölfarið þyngdist ég hratt. Þegar ég var búinn að þyngjast um þessi 30 kíló ákvað ég að eina leiðin til að ná árangri með mig væri að gefa út yfirlýsingu opinberlega til að halda mér ábyrgum. Ég stofnaði blogg sem hét ,,báráttan við holdið“ og sagðist ætla á Hvannadalshnjúk eftir eitt ár og svo Mont Blanc í framhaldinu. Að vísu liðu 3 ár þar til ég komst upp á Mont Blanc en þetta var gæfa mín að gera þetta svona. Síðan 2010 er ég búinn að fara á yfir 2100 tinda. Að vísu er hægt að fara 4 ferðir á toppinn á Úlfarsfellið sama daginn og það telur sem 4 tindar en ég fór mest 350 fjallgöngur á einu ári. En ég held að þetta sé það sem hafi bjargað mér af því að ég verð svo manískur þegar ég set mér markmið og geri allt til að standa við það. Matarræðið og lífsstílinn byrjaði að batna samhliða fjallgöngunum.“

„Ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki tekið mig í gegn fyrir tíu árum. Ég var reykingamaður, ég var offitusjúklingur og svo var ég í versta djobbi á Íslandi sem ristjóri DV með alla streituna sem því fylgdi. Nú hef ég tekið reykingarnar út, létt mig og lét svo reka mig af DV!“

Reynir, sem hefur nú gífurlega ástríðu fyrir útivist, segist telja að stóra málið í samfélaginu sé að reyna að stoppa faraldur heilsuleysis og lífsstílssjúkdóma.

,,Þú getur bjargað lífi manns með því að fá hann til að taka þátt í útivist. Hvort sem það er þunglyndi, athyglisbrestur eða aðrir lífsstílskvillar, það byrjar allt að lagast þegar þú ferð út í náttúruna og labbar á fjöll. Mér finnst þetta vera stóra málið á næstu árum að við hjálpum fólki að bjarga sér frá sjálfu sér. Þegar lífsstílssjúkdómar eru farnir að drepa flesta er þetta stóra málið. Þeir stjórnmálamenn sem átta sig á þessu og setja lýðheilsu í forgang, þeir munu gera mikið gagn. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig á að útfæra það en við verðum að gera eitthvað í þessum málum. Það er eitt að vera með fitufordóma en annað að vera á móti því að fólk sé að drepa sig úr heilsuleysi.“

Í þættinum ræða Reynir og Sölvi um sjómennskuna, áratuga feril í fjölmiðlum, hvernig Reynir tók heilsu sína í gegn þegar hann óttaðist um líf sitt og margt fleira. Þáttinn má sjá í heild sinni hér að neðan.

Auglýsing

læk

Instagram