Smárabíó opnar með sjálfvirka þjónustu

Smárabíó opnar á morgun, þriðjudag, eftir 2ja vikna lokun vegna áskorunar sóttvarnalæknis til fyrirtækja.

Sjálfvirkni og snertilaus þjónusta einkennir þá þróun sem Smárabíó hefur tileinkað sér. Á morgun mun Smárabíó opna á ný og býður nú upp á enn fleiri snertilausar lausnir og sjálfvirka þjónustu.

Sjálfvirk hlið hafa verið sett upp við inngang bíóhússins þar sem bíógestir skanna sjálfir miðana sína þegar gengið er inn. Sjoppan hefur verið endurskipulögð og er nú sjálfsafgreiðsla að mestu þar sem gestir taka sjálfir sínar vörur og skanna.

Því geta bíógestir Smárabíós keypt bíómiða og veitingatilboð fyrirfram í appi, skannað sig sjálf inn við inngang, sótt vörur úr sjoppunni og skannað og gengið svo í sitt sæti þar sem sjálfkrafa 2 metra sætisbil er þegar tryggt á milli gesta.

„Við munum halda áfram að þróa sjálfvirkar lausnir til að bregðast við breyttu landslagi í samfélaginu og bjóða okkar bíógestum upp á öruggt umhverfi,“ segir í tilkynningu.

Auglýsing

læk

Instagram