Vinnur markvisst að því að verða 200 ára

Tryggvi Hjaltason er giftur, þriggja barna faðir sem vinnur hjá greiningardeild CCP. Hann langar að verða tvö hundruð ára og er að vinna markvisst í því.

„Ég held að það sé tæknilega ekki mögulegt að verða tvö hundruð ára í dag og það er svo sem ekkert ennþá sem gefur til kynna að það sé hægt. Það eru margir sem hafa skoðað hrörnun og DNA og annað sem vilja meina að það verði aldrei hægt en það sem við erum að sjá, og mér finnst mjög spennandi, að tæknin er að gefa okkur aukna getu til þess að eiga fleiri góð ár og lifa lengur í fullri heilsu. Það sem ég vonast eftir að þegar ég verð sextugur þá verði meðal sextugsaldurinn töluvert heilbrigðari en sextugsaldurinn í dag og fyrir tuttugu árum,“ segir Tryggvi.

„Ég hef svolítið verið að fikta mig áfram með föstur og rannsóknir sýna fram á það að föstur hafa alveg gríðarlega jákvæð áhrifa á heilsuna ef þær eru stundaðar rétt. Helstu rannsóknarmenn í Bandaríkjunum á því sviði eru að tala fyrir því að föstur ættu að vera partur af nútíma velferðarkerfi sem fyrirbyggjandi heilbrigðismeðferð. Þegar þú fastur fer líkaminn í ákveðið varnarástand og ef við einföldum þetta mjög þá fer hann að eyða út slæmum frumum og sérstaklega frumur sem eru líklegastar til að breytast í krabbameinsfrumur. Svo þegar þú ferð út úr föstu fer líkaminn aftur að byggja sig upp.“

Tryggvi hefur aldrei bragðað áfengi, aldrei smakkað kaffi, aldrei reykt og aldrei prófað vímuefni. Hann segir það meðvitaða ákvörðun sem hann tók mjög snemma því hann langaði ekki að innbyrða neitt sem myndi trufla eðlilega heilastarfsemi.

„Þetta er bara partur af þessu plani og ef ég ætlaði að verða mjög gamall þá vildi ég ekki setja þá áhættu fyrir framan mig að verða áfenginu eða sígarettunum að bráð.“

Sjáðu innslagið í heild sinni hér fyrir neðan.

Auglýsing

læk

Instagram