Í fordæmisgefandi dómi úrskurðaði Hæstiréttur Bretlands í dag einróma að hugtökin „kona“ og „kyn“ í Jafnréttislögunum frá 2010 vísi til líffræðilegs kyns, þ.e. einstaklinga sem fæddust sem konur.
Dómurinn fellur í kjölfar margra ára baráttu kvenréttindahreyfingarinnar For Women Scotland (FWS).
Úrskurðurinn hefur áhrif á túlkun löggjafar um kynjahlutföll í opinberum nefndum og getur haft víðtæk áhrif á kynskilgreiningu innan laga í Englandi, Skotlandi og Wales.
Skoskum lögum mótmælt vegna nýrrar skilgreiningar
Upphaf málsins má rekja til laga sem samþykkt voru í Skotlandi árið 2018, þar sem kveðið var á um að hlutfall kvenna í opinberum nefndum skyldi vera að minnsta kosti 50%.
Skilgreining laganna náði einnig til trans kvenna.
FWS taldi þetta fara út fyrir valdheimildir þingsins og víkja frá hefðbundinni merkingu orðsins „kona“.
Dómstóll í Skotlandi hafnaði upphaflega áskorun FWS árið 2022, en hópurinn fékk síðar leyfi til að áfrýja málinu til Hæstaréttar.
Kyn er líffræðilegt
Lögmaður FWS, Aidan O’Neill, hélt því fram fyrir rétti að „kyn“ ætti að vísa til líffræðilegs kyns eins og það er skilgreint „í daglegu máli“.
Hann sagði: „Kyn einstaklings, hvort sem hann er karl eða kona, drengur eða stúlka, ákvarðast við getnað og er óumbreytanlegt líffræðilegt ástand.“
Vernd trans fólks óbreytt
Lord Hodge, sem talaði fyrir hönd fimm dómara, þriggja karla og tveggja kvenna, lagði áherslu á að úrskurðurinn þýddi ekki að trans fólk væri svipt vernd samkvæmt lögunum.
„Jafnréttislögin 2010 veita trans fólki vernd gegn mismunun á grundvelli kynleiðréttingar“ sagði hann og bætti við að þessi vernd nái einnig til beinnar og óbeinnar mismununar sem og áreitni.
Fagnaðarlæti hjá kvenréttindahreyfingu – andmæli frá mannréttindasamtökum
Fiona McAnena, Maya Forstater, Pam Ghosal og Helen Joyce, helstu talskonur FWS, stóðu fyrir utan Hæstarétt í London þegar niðurstaðan var lesin upp.
Þar heyrðust fagnaðarlæti meðal stuðningsfólks hópsins.
Andstæðingar úrskurðarins, þar á meðal Amnesty International, gagnrýna hann harðlega.
Samtökin lögðu fram greinargerð þar sem þau vöruðu við bakslagi í réttinda trans fólks og sögðu útilokun þeirra frá kynbundinni vernd brjóta í bága við mannréttindi.