Aaron sviptur sigurtitli Söngkeppni framhaldsskólanna

Auglýsing

Samband íslenskra framhaldsskólanema hefur ákveðið að svipta Aaron Ísak Berry sigurtitli Söngkeppni framhaldsskólanna 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu og segir þar að framkvæmdastjórn SÍF hafi tekið ákvörðunina í kjölfar dóms sem Aaron hlaut á dögunum.

Aaron Ísak var nýverið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn þremur drengjum og að hafa haft barnaníðsefni í fórum sínum. Fram kom í dómnum að Aaron Ísak væri talsvert á eftir í þroska og komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að betra væri að hann væri í eftirliti hjá réttargeðdeild en að hann afplánaði í fangelsi.

„Afstaða SÍF gegn kynferðisofbeldi, þá sérstaklega gagnvart börnum, er skýr. Nafn Aarons verður fjarlægt af lista sigurvegara á vefsíðu SÍF, neminn.is, og verður hann ekki talinn hluti af hópi sigurvegara keppninnar,“ segir í tilkynningu frá SÍF.

Samskipti Aarons og drengjanna þriggja hófust eftir að hann tók þátt í Söngvakeppninni og virðist sem drengirnir hafi haft samband við Aaron á Instagram til að lýsa yfir aðdáun sinni á söngvaranum. Brotin eru sögð hafa farið fram frá hausti 2019 til vorsins 2020. Þá var Aaron 21 árs gamall og þolendurnir 12 ára.

Auglýsing

„SÍF vill nota tækifærið til að hvetja alla þolendur kynferðisofbeldis til að leita sér hjálpar með því að hringja í síma 112, nýta netspjall Rauða krossins á 1717.is, eða leita til neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis sem er opin allan sólarhringinn og hægt er að hringja í síma 543-1000.“

Einnig hvetur SÍF alla sem verða varir við óviðeigandi og ólöglegt efni á netinu sem varðar börn eða er beint gegn börnum, til að tilkynna það í gegnum ábendingarlínu Barnaheilla.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram