Aðstoða illa búna ferðamenn sem eru á lakkskóm á Reynisfjalli, nóg að gera hjá björgunarfólki

Björgunarsveitarfólk í Vík í Mýrdal hefur haft nóg að gera í dag en fólkið hefur aðstoðað ökumenn þrjátíu til fjörutíu bíla sem festust í ófærð á Reynisfjalli.

Flestir eru illa búnir erlendir ferðamenn sem virðast ekki átta sig á því að hér er vetrarfærð.

Þetta kemur fram í viðtali RÚV við Orra Övarsson, formann björgunarsveitarinnar Víkverja.

Orri segir að stór kafli fjallsins sé þungfær en veðrið hafi verið ágætt, í það minnsta ekki blint. Hann segir að flestir ökumanna séu illa búnir ferðamenn. „Þetta er 95 prósent ferðamenn. Þetta er mikið af asíufólki á ferðinni núna,“ segir hann.

„Og hvernig eru menn búnir“, spyr fréttamaður RÚV.

„Bara í lakkskónum sínum og svoleiðis, fólk er greinilega ekki að fara í einhvern vetur. Þetta verður strembinn dagur ef spáin rætist. Það gæti farið að hvessa þegar líður á og þá verður fjallið bara algjörlega ófært,“ segir Orri.

Hugleiðingar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands

Búist er við norðaustan og síðar norðvestan hvassviðri og sums staðar stormi og talsverðri ofankomu í dag. Útlit er fyrir þónokkra snjókomu á Nv-landi, einkum Vestfjörðum en með suðausturströndinni og á láglendi á Austfjörðum hlýnar líklega nóg til að úrkoman verði slydda um tíma í dag. Líkur eru á samgöngutruflunum sökum veðurs, einkum norðan- og austanlands. Í kvöld gengur í hvassa vestanátt með éljum og skafrenningi sunnan- og suðvestantil, þar með talið á Hellisheiði og á Suðurlandsvegi austur fyrir Mýrdalsssand.

Útlit er fyrir talsvert skaplegra veður í stutta stund í fyrramálið, og jafnvel fram yfir hádegi en ný lægð kemur upp að landinu úr suðri síðdegis á morgun með sunnan hvassviðri, talsverðri úrkomu og hlýnandi veðri. Það bætir talsvert í vindhrað, úrkomu og hlýindin á þriðjudag og er viðbúið að mikið af þeim snjó sem hefur safnast undanfarna daga bráðni í hlýjum suðvestan stormi og rigningu.

Auglýsing

læk

Instagram