Art Medica sagði Ásthildi líklega of gamla til að verða þunguð, varð ólétt eftir tvær tilraunir í Grikklandi

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, gekkst undir tíu glasafrjóvganir á fjórum hjá fyrirtækinu Art Medica hér á landi án þess að verða ófrísk.

Það tók hana aftur á móti aðeins tvær tilraunir að verða ólétt á læknastofu í Grikklandi.

Þetta kemur fram í viðtali við Ásthildi og eiginmann hennar í Sunnudagsmogganum.

Læknirinn hennar á Íslandi sagði að hún væri líklega orðin of gömul og eggin léleg en hún var 38 ára þegar hún byrjaði að reyna að eignast barn.

Hafþór Jónsson, eiginmaður Ásthildar, frétti fyrir tilviljun af læknastofu í Grikklandi þegar hann var í heimsókn í Hong Kong. Þau höfðu samband við fyrirtækið og flugu til Aþenu skömmu síðar.

Hálftíma eftir að þau komu á læknastofuna fengu þau þetta svar: „Þetta leg getur aldrei haldið barni,“ segir Hafþór í samtali við Sunnudagsmoggann en þarna kom í ljós að Ásthildur var með örvef og bandvefsæxli inni í laginu, legið var fullt af dauðum vef sem þyrfti að fjarlægja.

Daginn eftir fór hún í aðgerð þar sem þetta var lagfært.

Hjónin voru ánægð með að búið væri að laga það sem hugsanlega skýrði barnleysið en tilfinningarnar voru þó blendnar.

„Ég var bæði glaður og reiður. Glaður að það væri von en brjálaður að þeir í Art Medica hefðu ekki séð þetta og ekki rannsakað Ásthildi nægilega mikið. En þegar við erum búin þarna úti er Art Medica hætt og skýringa því illa hægt að leita,“ segir Hafþór í samtali við Morgunblaðið.

Tólfta glasafrjóvgunin bar árangur og kom dóttirin Lilja í heiminn á síðasta ári. Um var að ræða aðra tilraunina á læknastofunni í Grikklandi.

Auglýsing

læk

Instagram