Auglýsing Stígamóta umdeild á Twitter: „Er ábyrgðin farin af þolendum nema ef þolandi er ungmenni?“

Í gær fór af stað ný herferð Stígamóta sem er ætlað að safna fé til að stofna fræðslumiðstöð sem sinni fræðslu og forvörnum gegn kynferðisofbeldi. Leikin auglýsing sem kom út í gær hefur vakið mikla athygli en ekki eru allir sammála um skilaboð hennar. Auglýsingin á að endurspegla reynslu brotaþola sem leita til Stígamóta en hún sýnir þroskasögu tveggja krakka og hvernig staðalmyndir hafa alvarleg áhrif á samskipti þeirra.

Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann, einn skipuleggjandi Druslugöngunnar í sumar, er ein þeirra sem hefur sett spurningamerki við skilaboð auglýsingarinnar. Hún veltir því fyrir sér hvort að ábyrgðin sé farin af þolendum nema í þeim tilfellum þar sem þolendur eru ungmenni.

Í myndbandinu má sjá stelpur setja myndir af sér á samfélagsmiðla og síðar í myndbandinu er einni þeirra nauðgað. Inga Björk, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og fötlunaraktívisti spyr hvort að við eigum að segja stelpum að hætta að pósta myndum af sér og tjá sig eins og þær vilji á Instagram því annars gæti einhver beitt þær kynferðisofbeldi.

Anna Bentína, starfskona Stígamóta, svarar Ingu og segir að með átakinu sé verið að segja að þessar staðalímyndir ýti undir sjúka ást og að allir krakkar eigi rétt á heilbrigðum fyrirmyndum. Hún bendir á pistil sinn á Vísi þar sem hún útskýrir tilganginn með herferðinni.

„Á tímum óraunsærra fyrirmynda á samfélagsmiðlum og aukins aðgengis að klámi er mikilvægt að veita mótvægi við því áreiti sem krakkar fá þaðan um kynlíf og samskipti kynjanna. Það er mikilvægt að fræða alla krakka um kynlíf og gera þarf betur þegar kemur að samskiptum og mörkum. Sá sem beitir ofbeldinu er alltaf ábyrgur fyrir því – hins vegar ber samfélagið ábyrgð á því afskiptaleysi sem klámáhorfi unglinga er sýnt,“ segir Anna Bentína í pistli sínum.

Margir taka undir með Ingu á Twitter og vilja einnig meina að auglýsingin eigi ekki heima í sjónvarpi og að hún sé triggerandi. Gunnar Garðarsson segir að það að fólk sé að túlka auglýsinguna á svona mismunandi hátt sé skýrt merki um að auglýsingin hafi misheppnast. Það sé mjög slæmt þegar viðfangsefnið er svona alvarlegt og viðkvæmt.

Hér að neðan má sjá auglýsingu Stígamóta

Auglýsing

læk

Instagram