Biskup segist ekki hafa vitað af frétt sem hún fékk tækifæri til að svara

Kirkjuþing unga fólksins sendi frá sér ályktun á dögunum sem sneri að afnámi samviskufrelsis presta sem heimilar prestum þjóðkirkjunnar að neita samkynja pörum um hjónavígslu á grundvelli eigin samvisku.

Fréttablaðið fjallaði um málið og í fréttinni kemur fram að biskup vildi ekki tjá sig um málið.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir í grein í Fréttablaðinu í dag að hún hafi aldrei verið spurð og að hún hafi ekki vitað af fréttinni fyrr en hún las hana í Fréttablaðinu.

Í athugasemd ritstjórnar undir sömu grein kemur hins vegar fram að blaðamaður hafði samband við Biskupsstofu og leitaði eftir því að fá viðbrögð biskups.

Árni Svanur Daníelsson, verkefnisstjóri upplýsingamála kirkjunnar og fjölmiðlafulltrúi, svaraði því til að biskup vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Í greininni segir biskup að þjóðkirkjan hafi ávallt litið svo á að réttur samkynhneigðra til kirkjulegrar hjónavígslu væri tryggður þó friðhelgi prests til að fara eftir samvisku sinni væri ekki fyrir borð borinn.

Þá segir hún að samþykkt kirkjuþings unga fólksins verði send til kirkjuráðs til umfjöllunar og meðferðar eins og starfsreglur geri ráð fyrir.

Auglýsing

læk

Instagram