Blaðamaður Stundarinnar flutti lögheimili sitt á Bessastaði í nokkra daga

Atli Már Gylfason, blaðamaður Stundarinnar, flutti lögheimili sitt á Bessastaði fyrir nokkrum dögum og fór skráningin í gegn.

Þetta gerði hann til þess að sýna fram á að hver sem er getur fært lögheimili sitt hvert sem er, hvenær sem er og án þess að sá sem þar býr viti það.

Atli Már greinir frá þessu á Facebook.

„Þannig að í nokkra daga fékk Guðni Th. öll innheimtubréfin mín. Þarf að taka bíltúr þangað við tækifæri og sækja póstinn minn,“ skrifar hann.

Samkvæmt mynd sem Atli Már birtir með færslunni var hann skráður með lögheimili í Norðurhúsum á Bessastöðum í sveitarfélaginu Garðabæ. Hann færði lögheimilið 27. janúar.

Samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá hefur Atli Már nú fært lögheimili sitt frá Bessastöðum.

Auglýsing

læk

Instagram