Breytingar á Xinu: Harmageddon á nýjum tíma

Harmageddon snýr aftur á X977 í fyrramálið. Þátturinn verður á nýjum tíma og hefst klukkan níu, í staðinn fyrir átta, og lýkur klukkan 12. Morgunþátturinn Ómar snýr einnig aftur á dagskrá í fyrramálið og verður á dagskrá frá sjö til níu.

Mikil uppstokkun var á útvarpssviði 365 á dögunum og þættir lagðir niður á flestum útvarpsstöðvum fyrirtækisins. Á Xinu hættu þættirnir Kynlegir kvistir og Laugardagskaffið.

Óvissa var um framtíð Harmageddon, sem hefur verið flaggskip X977 frá því að þátturinn fór í loftið í apríl 2009. Nú hefur óvissunni verið eytt en Frosti og Máni mæta í vinnuna á nýjum tíma í fyrramálið. Nýi tíminn þýðir að þeir fara í beina samkeppni við Virka morgna á Rás 2 en þættinum stýrir þeirra gamli félagi af Xinu, Andri Freyr ásamt Gunnu Dís.

Þá snýr Ómar Eyþórsson aftur með þáttinn sinn í fyrramálið. Hann hætti á X977 fyrr á þessu ári og hóf störf á sjónvarpsstöðinni Bravó en sjónvarpsstöðin var svo seld til 365 og starfsfólki sagt upp.

Ómar hefur undanfarið stýrt þætti á Bylgjunni ásamt því að leysa af á Xinu.

Auglýsing

læk

Instagram