Bryndís Björgvinsdóttir nýr dómari í Gettu betur, æskudraumurinn rætist

Rithöfundurinn Bryndís Björgvinsdóttir verður dómari í Gettu betur í vetur ásamt Steinþóri Helga Arnsteinssyni. Þau semja einnig spurningarnar í keppninni.

Bryndís kemur í stað Margrétar Erlu Maack en hún var dómari og spurningahöfundur ásamt Steinþóri síðustu tvö ár.

„Ég býst meðal annars við að þiggja innblástur úr uppáhaldinu mínu – hversdagsmenningunni allt um kring – og smíða spurningar sem krefjast svara sem erfitt verður að finna svo glatt í bókum,“ segir Bryndís og bætir við að lítið keppnisskap hafi orðið til þess að hún sóttist aldrei eftir því að keppa í Gettu betur.

En æskudraumurinn rætist engu að síður: að fá að koma því að, sem mér þykir hvað merkilegast og áhugaverðast. Enda er það það sem ég geri einnig sem kennari eða rithöfundur.

MR vann Gettu betur í 19. skipti í vor og keppnin hefur göngu sína á ný í janúar. Björn Bragi verður spyrill.

Bryndís er margverðlaunaður rithöfundur. Hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka fyrir bókina Hafnfirðingabrandarinn. Bókin hlaut einnig Fjöruverðlaunin 2014 í flokki barna- og unglingabóka og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana 2014 fyrir bestu ungmennabókina.

Sjá einnig: Sjö bestu augnablik TilfinningaTómasar í úrslitum Gettu betur

Bryndís sendi einnig frá sér bókina Flugan sem stöðvaði stríðið árið 2011 og hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin sama ár ásamt Bókmenntaverðlaunum starfsfólks bókaverslana sem besta barnabókin.

Bryndís opnaði einnig Facebook-síðuna Kæra Eygló — Sýrland kallar á dögunum. Síðan vakti alþjóðlega athygli þar sem um 10 þúsund Íslendingar buðu flóttafólki aðstoð sína.

Auglýsing

læk

Instagram