Conor McGregor sendir frá sér yfirlýsingu, er ekki hættur og er tilbúinn að berjast í sumar

Bardagakappinn Conor McGregor hefur sent frá sér yfirlýsinguna sem allir hafa beðið eftir á Facebook. Samkvæmt henni er hann ekki hættur að berjast og tilbúinn að mæta Nate Diaz á bardagakvöldinu UFC 200 í sumar með einu skilyrði: Að hann fái til að undirbúa sig og þurfi ekki að eyða ómældum tíma í að kynna bardagann.

Heimur blandaðra bardagalista fór á hliðina á þriðjudag þegar Conor birti þetta tíst á Twitter þar sem hann segist vera sestur í helgan stein.

Í kjölfarið veltur menn fyrir sér hvað bjó að baki og í fréttaskýringu Nútímans um málið var ein af tilgátunum sú að Conor sé búinn að fá nóg af tímafrekum kröfum UFC varðandi fjölmiðla og kynningar á bardögum sínum. Miðað við yfirlýsingu Conors er sú tilgáta rétt.

„Ég er bara að reyna að vinna vinnuna mína og berjast,“ segir Conor í yfirlýsingunni. „Ég fæ greitt fyrir að berjast. Ég fæ ekki enn greitt fyrir kynningarstörf.“

Conor hefur verið algjör draumur fjölmiðla frá því að hann hóf að berjast í UFC og hefur talað í fyrirsögnum. Hann segist hafa týnst í því sem hann kallar kynningarleiknum og gleymt listinni að berjast.

Hann leggur áherslu á að hann muni alltaf spila leikinn betur en allir en fyrir bardagann við Nate Diaz vill hann fá frið. „Ég lokaði ekki á allt kynningarstarf, ég vildi bara gera breytingar en því var hafnað,“ segir hann.

Conor vísar þar í kynningarstarf sem fer fram í Las Vegast um helgina. Þangað átti hann að mæta í viðtöl og myndatökur fyrir UFC 200 en kom þess í stað til Íslands að æfa með Gunnari Nelson í Mjölni. Dana White, forseti UFC, hætti í kjölfarið við bardaga Conor McGregor og Nate Diaz, sem átti að vera aðalbardagi kvöldsins.

White hefur síðar opnað á að Conor geti enn barist á kvöldinu ef hann óskar eftir því. Og í yfirlýsingu sinni segist Conor vera reiðubúinn að berjast á kvöldinu ef hann fær að haga undirbúningnum eftir sínu höfði.

„Ég þarf að einangra mig núna,“ segir hann.

Ég er að fara að berjast við stærri og þyngri mann. Í þetta skipti þarf ég að undirbúa mig á réttan hátt. Ég get ekki dansað fyrir ykkur í þetta skipti. Það er kominn tími til að hinir aparnir dansi. Ég er búinn að dansa okkur hingað.

Conor segist hafa fært UFC tekjur upp á 400 milljón dali á aðeins átta mánuðum og vonast til að það sé nóg til að komist hjá stórum hluta kynningarstarfsins fyrir UFC 200. „Ég er samt tilbúinn fyrir UFC 200,“ segir hann.

Hann segist vera tilbúinn að taka þátt í stórum blaðamannafundi í New York fyrir bardagakvöldið en vill halda áfram að æfa eftir það, án áreitis. „Ef þeim finnst ég ekki eiga skilið að sitja hjá í kynningarstarfinu fyrir þennan bardaga þá veit ég ekki hvað skal segja.“

Hér fyrir neðan má sjá yfirlýsingu Conors

Auglýsing

læk

Instagram