Eðlan eykur sölu á rjómaosti

Sala á rjómaosti hefur aukist mikið undanfarin misseri. Á sama tíma hefur heit ostadýfa, sem heil kynslóð af fólki kallar „eðlu“, aldrei verið vinsælli.

Rúmlega 10 þúsund karlar, ungir sem aldnir, eru í hópnum Sjomlatips! á Facebook. Hópurinn er nokkurs konar hliðarhópur Beauty tips! þar sem rúmlega 17 þúsund konur ræða allt milli himins og jarðar.

Í Sjomlatips! hefur eitt umræðuefni verið fyrirferðarmeira en önnur: Eðlan. Eðla er ostadýfa sem samastendur af rjómaosti, salsasósu og osti. Hún er svo bökuð í ofni og borðuð með kornflögum. Hægt er að bæta ýmsu öðru í eðluna, svo sem kjöti eða öðrum ostum.

Fjölmargir Sjomlar hafa beðið um uppskriftir af eðlu í hópnum ásamt því að biðja um góð ráð varðandi bökun á eðlu. Þá eru sumir duglegir við að svara spurningum um eitthvað allt annað með: „Fá sér eðlu?“.

Mjólkursamsalan hefur tekið eftir þessu. Sala á rjómaosti hefur til að mynda aukist um sjö prósent á árinu og heil 26 prósent frá árinu 2011, samkvæmt Aðalsteini Magnússyni sölustjóra.

„Við vorum einmitt búin að sjá þetta trend. Þetta var víst málið — sérstaklega núna í prófalestrinum,“ segir hann í samtali við Nútímann.

Uppruna þessarar orðanotkunar, að kalla ostadýfuna eðlu má rekja til Mosfellsbæjar upp úr aldamótum, eftir því sem Nútíminn kemst næst.

Góður félagi grínistanna Steinda jr. og Dóra DNA ku hafa byrjað að nota orðið þegar Steindi var að útbúa ostadýfu í Mosfellsbæ fyrir meira en tíu árum.

Steindi hefur síðan þá haldið orðinu á lofti á samfélagsmiðlum og sendi reglulega Snapchat af sér að borða sjóðandi heita eðlu. Þá hefur hann birt myndir af eðlum á Instagram ásamt því að ræða um eðlur við notendur á Twitter.

Auglýsing

læk

Instagram