Eigandi Mountaineers of Iceland segir hjónin sem týndust hafa óhlýðnast og ýkt í viðtali við RÚV

Einn eigenda ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland segir áströlsk hjón, sem urðu viðskila við hóp sinn á vegum fyrirtækisins í vélsleðaferð við Langjökul á fimmtudag, hafa fært í stílinn í viðtali í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi. Þá hafi þau ekki farið eftir reglum sem þeim voru settar.

160 björgunarsveitarmenn leituðu hjónanna við erfiðar aðstæður; myrkur og mikinn skafrenning. Veðurstofa Íslands hafði gefið út stormviðvörun fyrir svæðið þar sem ferðin var farin.

Rætt var við hjónin David og Gailu Wilson á RÚV í gærkvöldi. Þau voru harðorð í garð Mountaineers of Iceland og sagði David að það ætti að loka fyrirtækinu.

Hjónin voru saman á vélsleða, aftast í hópnum. David rak sig í takka á vélsleðanum með þeim afleiðingum að það slökknaði á honum. Hjónunum tókst ekki að koma honum í gang aftur fyrr en eftir hálftíma.

Þau ákváðu að fara af stað og fylgja slóðanum en komu loks að ísilögðu svæði þar sem slóðin hvarf. Ákváðu þau að grafa sig í fönn og drepa á vélsleðanum til að spara eldsneytið.

Aðstæður við leitina á fimmtudaginn væru slæmar

Herbert Hauksson, einn eiganda Mountaineers of Iceland, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að hjónin hafi ekki farið eftir þeim reglum sem þeim voru settar og það hafi valdið verulegum vandræðum.

„Þvert á reglurnar, sem hann viðurkenndi að honum hefðu verið kynntar í upphafi ferðar, byrjar hann að keyra. Án þess að vera með nokkuð staðsetningartæki.

Hann keyrir kílómetraleið og lendir ofan í kvos. Þar lendir hann á svellbunka þannig sleðinn missir grip og festist þar. Það dugar til þess að við getum ekki fundið hann þar sem hann er kominn langt út fyrir leiðina.“

„Það var annað sem olli okkur verulegum vandræðum. Það er að þau drepa á sleðanum til þess að spara rafmagn. Þau drepa á honum um sexleytið og setja hann ekki í gang fyrr en átta um kvöldið,“ segir Herbert í samtali við Fréttablaðið.

Þar af leiðir hafi leitarmenn ekki séð ljós á sleðanum. Herbert segir að líklegast hefðu ljósin sést ef kveikt hefði verið á þeim. „Þannig hann eiginlega eyðileggur gífurlega mikið fyrir sjálfum sér,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram