Eignir meðlima Sigur Rósar áfram kyrrsettar: grunaðir um „mjög alvarlegt brot“

Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í síðustu viku kyrrsetningu eigna þriggja meðlima hljómsveitarinnar Sigur Rósar vegna rannsóknar á meintum skattalagabrotum þeirra. Hljómsveitarmeðlimir höfðu farið fram á að kyrrsetningu eignanna yrði aflétt en þær hafa verið kyrrsettar frá því í desember á síðasta ári. Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Í úrskurðunum eru meðlimir hljómsveitarinnar grunaðir um „mjög alvarleg brot.“

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kyrrsetti eignir þeirra Jóns Þórs Birgissonar, Georgs Holm og Orra Páls Dýrasonar að kröfu tollstjóra. Samtals var um að ræða kyrrsetningu upp á tæpar 800 milljónir króna en hæsta krafan var á hendur söngvara hljómsveitarinnar, Jóni Þór, sem er betur þekktur sem Jónsi. Sú krafa var upp á 683 milljónir króna en rannsókn á meintum brotum hófst í byrjun ársins 2016.

Í máli Jónsa söngvara hljómsveitarinnar voru átta fasteignir, fjögur ökutæki, bankareikningar og hlutafé í þremur félögum kyrrsett. Tvær fasteignir í eigu Orra Páls trommara og tvær fasteignir í eigu Georgs Holm bassaleikara voru einnig kyrrsettar.

Meðlimir hljómsveitarinnar segjast hafa fjárfest í kostnaðarsamri ráðgjöf sérfræðinga á sviði skattskila og endurskoðunar til að sjá um uppgjör sín og fjármál. Þeir hafi alla tíð lagt áherslu á að rétt væri staðið að skattskilum þeirra og uppgjöri og því hafi það komið þeim verulega á óvart þegar skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn á skattaskilunum.

Þeir hafi frá upphafi verið í góðri trú um að þeir sérfræðingar sem ráðnir höfðu verið stæðu að öllum uppgjörum og skattaskilum með réttum hætti. Aldrei hefði verið tilefni til að ætla annað en að rétt væri staðið að framtalsskilum þeirra og uppgjöri.

Þeir segja einnig að hluti málsins snúist um mistök endurskoðanda sem þeir hafi greitt fyrir að sjá um uppgjör og skattskil fyrir sig og hafi ekki gefið tilefni til þess að ætla að eignum yrði skotið undan heldur hafi þeir verið samstarfsfúsir og veitt allar upplýsingar sem skattrannsóknarstjóri taldi nauðsynlegar.

Kyrrsetning eigna þremenninganna stendur samkvæmt úrskurðinum og rannsókn skattrannsóknarstjóra á meintum brotum stendur enn yfir.

Hjördís Halldórsdóttir lögmaður þeirra segir í samtali við Fréttablaðið að niðurstöðu héraðsdóms verði áfrýjað til Landsréttar.

Auglýsing

læk

Instagram