Engan sakaði þegar reykur kom upp í flugvél Air Iceland Connect

Flugvél Air Iceland Connect sem var á leið frá Reykjavík til Egilstaða í dag var snúið við eftir flugtak á fjórða tímanum í dag eftir að reyks varð vart í vélinni. Lendingin á Reykjavíkurflugvelli heppnaðist vel. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir að líklegt þyki að um vélarbilun hafi verið að ræða og að annar hreyfla vélarinnar hafi bilað. 44 farþegar voru um borð í vélinni ásamt áhöfn og engan sakaði. Öllum farþegum hefur verið hleypt frá borði.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við Vísi að vélin hafi lent á Reykjavíkurflugvelli skömmu eftir klukkan 15.

Neyðarstigi var lýst yfir vegna bilunarinnar og viðbragðsaðilar voru kallaðir til. Vinna þeirra gekk vel fyrir sig og nú hefur neyðarviðbúnaður verið afturkallaður.

Auglýsing

læk

Instagram