Erlendar konur kúga íslenska karla á Skype, hóta að birta kynferðisleg myndbönd

Fjórir karlmenn hafa leitað til lögreglu að undanförnu eftir að reynt hefur verið að kúga fé út úr þeim vegna kynferðislegra athafna á netinu. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Í frétt RÚV kemur fram að karlmenn hér á landi lendi sífellt oftar í því að erlendar konur reyni að kúga úr þeim fé í gegnum Skype.

Karlarnir fjórir sem hafa leitað til lögreglu síðustu daga áttu í kynferðislegum samskiptum við konurnar á Skype. Konurnar tóku samskiptin upp og hótuðu þeim svo að myndböndin yrðu sýnd fjölskyldumeðlimum og vinum þeirra ef þeir myndu ekki láta þær fá tiltekna upphæð.

Konurnar reyna að kúga um 3-400 þúsund krónur úr körlunum. Hafliði Þórðarson, lögreglufulltrúi í fjármálabrotadeild, segir í frétt RÚV rútínuna alltaf þannig að hugguleg kona vingast við mann á Facebook, gerist ágeng og samskiptin færast yfir á Skype.

Það er þar sem þessi samskipti verða kynferðisleg. Og um leið og það verður þannig kemur fram hótun. Nú skuli menn borga. Annars verði birt myndbandsupptaka sem tekin var upp samhliða.

Hafliði segir í frétt RÚV mikilvægt að treysta engum á Internetinu sem maður þekkir ekki.

Auglýsing

læk

Instagram