Fer kokteilsósan á markað í Bandaríkjunum? Heinz sendir frá sér sósuna sem Íslendingar elska

Sósuframleiðandinn Heinz kannar nú hvort Bandaríkin séu tilbúin fyrir blöndu af tómatsósu og mæjónesi. Sósuna kallar fyrirtækið Mayochup en hún virðist ekki ósvipuð kokteilsósunni sem sumir telja að sé alíslensk uppfinning.

Vefmiðillinn Delish fjallar um málið en þar kemur fram að flestir hafi á einhverjum tímapunkti blandað saman tómatsósu og mæjónesi. Þar kemur einnig fram að þessi nýstárlega blanda Heinz sé þegar komin á markað í Mið-Austurlöndum en ef 500 þúsund manns kjósa með sósunni verður hún markaðssett í Bandaríkjunum.

Vísir fjallaði um uppruna kokteilsósunnar í október árið 2014. Þar heldur matreiðslumeistarinn Úlfar Eysteinsson því fram að hún hafi orðið til á veitingastaðnum Aski þegar Vals tómatsósu og majónesi var blandað saman.

Úlfar sagði þá að kokteilsósan væri farin að sjást víða. „Hún kom svo fljótlega í formi salatdressingar eins og Thousand Island. Þar kemur hún fram. Þetta er maður farinn að sjá á spænskum veitingastöðum. Þetta hefur verið á skandínavískum stöðum líka þar sem íslenskir kokkar eru að vinna á þessum stöðum,“ sagði hann.

Egill Helgason velti þessu í kjölfarið fyrir sér á bloggi sínu og komst að því að kokteilsósan hafi verið fundin upp í Bandaríkjunum árið 1948. „Þar er þetta kallað fry sauce eða burger sauce,“ sagði hann.

„Í Frakklandi er þetta kallað sauce américaine eða einfaldlega ketchup-mayo, en í Brasilíu rosé-sósa. Í Argentínu er líka hefð fyrir þessari sósu en þar kallast hún golf-sósa. Þar í landi er almannarómur að sósan hafi verið fundin upp um miðjan þriðja áratug síðustu aldar í golfklúbbi í Mar del Plata.“

Auglýsing

læk

Instagram