Fleiri nefna strákana sína Erpur eftir að Erpur sló í gegn

Níu litlir drengir hafa fengið nafnið Erpur eftir að rapparinn Erpur Eyvindarson sló í gegn með hljómsveit sinni XXX Rottweiler. Aðeins þrír aðrir báru nafnið áður en hann varð áberandi á Íslandi.

Sjá einnig: 19 nöfn sem ríkið bannar þér að nefna barnið þitt

Erpur steig fram á sjónarsviðið árið 2000 þegar hljómsveitin XXX Rottweilerhundar unnu Músíktilraunir. Sama ár sló hann í gegn sem sjónvarpsmaðurinn Johnny National í þættinum Íslensk kjötsúpa á Skjá einum.

Ári síðar kom svo út fyrsta plata Rottweilerhundanna og naut hún mikilla vinsælda, seldist í meira en 10 þúsund eintökum og textagerðin olli miklum usla. Erpur hefur svo komið víða við og gaf út fyrstu sólóplötu sína árið 2010. Hún seldist einnig vel og hann vinnur nú að næstu plötu.

Erpur er ekki algengt nafn á Íslandi en þeim hefur þó fjölgað sem hafa fengið nafnið eftir að Erpur Eyvindarson sló í gegn. Ekkert barn fékk nafnið á árunum 1986 til 2006 en árið 2007 byrjaði boltinn að rúlla og nú hafa níu nýir Erpar bæst í hópinn.

Það er þó ekki hægt að fullyrða að frægð Erps hafi haft áhrif enda er þessi samantekt til gamans gerð og langt frá því að vera vísindaleg.

Auglýsing

læk

Instagram