Gaukur lak lagi Silvíu: „Vil biðja þjóðina afsökunar“

Gaukur Úlfarsson kvikmyndagerðarmaður lak laginu Til hamingju Ísland á netið áður en lögin í Söngvakeppni sjónvarpsins voru kynnt fyrir landsmönnum. Þetta kom fram í þættinum Árið er sem hóf göngu sína á ný á Rás 2 í dag.

Gaukur var maðurinn á bakvið Silvíu Nótt ásamt Ágústu Evu Erlendsóttur. Hann bað þjóðina afsökunar í þættinum í dag.

„Ég reiknaði ekki með að afleiðingarnar yrðu svona svakalegar,“ sagði hann og fór yfir ringulreiðina sem skapaðist í kjölarið á því að laginu var lekið. Ágústa Eva sagði Gauk ekki hafa sagt sér að hann hafi lekið laginu fyrr en tveimur árum síðar.

Farið var yfir Eurovisionævintýri Silvíu Nætur í þættinum. Gunnlaugur Jónsson, annar umsjónarmanna þáttarins sagði í frétt Nútímans í vikunni að þetta hafa verið mjög umdeilt mál á sínum tíma. „Aðrir keppendur voru vægast sagt brjálaðir yfir þessum leka og fóru fram á að Silvíu Nótt yrði vikið úr keppni,“ segir hann.

Á Vísi á sínum tíma lýstu höfundar lagsins harmi sínum yfir að lagið hafi lekið út og sögðu það hafa gerst án síns vilja eða vitundar.

Sögðust þeir vilja gera allt til að keppnin færi fram á grundvelli jafnréttis og heiðarleika og lofuðu að gæta sín betur við áframhaldandi æfingar og upptökur.

Svo fór að Páll Magnússon útvarpsstjóri ákvað að laginu yrði ekki vísað úr keppni. Í kjölfarið lagði Kristján Hreinsson fram stjórnsýslukæru í málinu. Útvarpsráð fjallaði um kæruna á fundi sínum og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að kæra ákvörðun útvarpsstjóra til ráðsins.

Silvía Nótt fékk því að taka þátt í undankeppninni sem hún vann. Hún gerði svo allt vitlaust í lokakeppninni í Grikklandi.

Auglýsing

læk

Instagram