Hafþór leikur í næstu þáttaröð af Game of Thrones

Kraftakarlinn Hafþór Júlíus Björnsson eyddi sumrinu í Króatíu við tökur á Game of Thrones. Þetta kemur fram í viðtali við Hafþór í dagblaðinu New York Times. Hafþór lék risann The Mountain í fjórðu þáttaröð og lá óvígur eftir epískan bardaga í lok þáttaraðarinnar.

Fimmta þáttaröð af Game of Thrones er væntanleg á næsta ári. Hafþór dvaldi í borginni Dubrovnik og tók með sér eigið haframjöl þar sem það er oft ómögulegt að finna þennan uppáhaldsmorgunmat kraftakarlsins.

Hafþór þarf að borða 10.000 hitaeiningar á dag til að viðhalda þyngd sinni og hann borðar á tveggja tíma fresti. Hann borðar mikið af spínati, kjúklingi, nautakjöti, laxi og sætum kartöflum.

Í viðtalinu kemur einnig fram að Hafþór hafi ekki svarað fyrsta tölvupóstinum frá framleiðanda Game of Thrones þar sem hann hélt að skilaboðin væru grín.

Þá kom Hafþór til greina sem illmenni í næstu Bond-mynd og þurfti, samkvæmt viðtalinu, að sýna fjölbreyttar tilfinningar í áheyrnarprufunni. Hann fékk ekki hlutverkið.

Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af einni einustu frétt.

Auglýsing

læk

Instagram