Harðar deilur innan Skraflfélagsins

Harðar deilur um orðareglur innan Skraflfélagsins urðu á dögunum til þess að stjórnarmeðlimur sagði sig úr stjórn. Íslandsmótið fer þó fram eins og ekkert hafi í skorist.

Sigurður Arent Jónsson, formaður Skraflfélagsins, staðfestir þetta í samtali við Nútímann. „Það er kannski kaldhæðni lífsins að reglurnar sem stjórnin gat ekki komið sér saman um snéru einmitt að samsettum orðum,“ segir hann og bætir við að stjórnin hafi ekki getað komið sér saman um útfærsluna á þessum ákveðna lið:

Innan skamms var allt komið í háaloft innan Skraflfélagsins sem endaði, því miður, með úrsögn eins stjórnarmeðlims. Málið snýst um það hversu herfilega erfitt er að setja mótsreglur um hvaða samsettu orð eigi að leyfa í íslensku útgáfunni af Scrabble. Mörg samsett orð er ekki að finna í orðabók, til dæmis óvinsæll og önnur orð þar sem for- eða viðskeytið liggur í augum uppi, og því er ekki hægt að miða alfarið við það líkt og með önnur orð auk þess sem vel er hægt að setja saman skiljanleg samsett orð um ákveðna hluti án þess að fordæmi séu fyrir fyrir því að þau séu almennt í notkun.

Sigurður tekur sem dæmi að „strætóbílagulur“ sé í raun frábært orð til að leggja þvert yfir leikborðið en veltir um leið fyrir sér á hvaða forsendum það yrði dæmt gilt eða ógilt.

„Hugsanlega mætti rekast á klósettákvæði í leigusamningi og hvað ef marsvínaflensa væri næsta farsótt sem herjaði á heiminn? Þetta er flókið mál en það þarf einhver að taka slaginn og til þess eru áhugafélög um borðspil,“ segir hann.

„Ég vil allavega búa í heimi þar sem spilað er eftir reglunum og það mætti í raun líta á þetta sem lýðræðislegt álitamál þar sem að þetta snýst í grunninn um að reglurnar séu auðlæsilegar og aðgengilegar sem flestum en að sama skapi nógu ítarlegar og tæknilegar til að geta komið að gagni við úrskurð deilumála.“

Íslandsmótið í skrafli fer fram í Friðarhúsinu á horni Snorrabrautar og Njálsgötu um næstu helgi, dagana 8. til 9. nóvember. Umræða um reglurnar fer fram á Facebook-síðu Skraflfélagsins en skráning á Íslandsmótið í gegnum skraflfelagid@gmail.com. Skráningargjald er 3.000 krónur.

Til þess að skera úr um deilumál með reglurnar til hliðsjónar hefur Skraflfélagið fengið til liðs við sig doktorsnemann Katrínu Axelsdóttur og málfarsráðunautinn og dagskrárgerðarkonuna Önnu Sigríði Þráinsdóttur.

Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram