Haukar draga kæruna til baka: „Stöndum uppi sem tvöfaldir sigurvegarar eftir þetta mál“

Handknattleiksdeild Hauka hefur dregið til baka kæru sína vegna úrslita úr leik Selfoss og Hauka í Olís-deild kvenna sem fór fram á miðvikudagskvöld í síðustu viku. Málið verður tekið upp á öðrum vettvangi.

Þetta kemur fram á heimasíðu Hauka en ekki er greint frá því hvar málið verður tekið upp. Sunnlenska greindi fyrst frá.

Sjá einnig: Haukar fá það óþvegið á Twitter eftir að hafa kært leik við Selfoss: „Þessi kæra er glórulaus“

Haukar vildu að leikurinn yrði spilaður aftur af því að Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, leikmaður Selfoss, spilaði síðustu mínútu leiksins í treyju með öðru númeri en hún spilaði stærsta hluta leiksins í. Treyja hennar rifnaði þegar hún braust í gegnum varnarleik Hauka þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Selfoss vann leikinn 28:25.

Magnús Matthíasson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, segir í samtali við Sunnlenska að málið hefði kostað Selfoss þónokkra fyrirhöfn enda erfitt að eiga við stórt og áhrifamikið félag.

„Kæra Hauka vakti mikla athygli enda ekki á hverjum degi sem handboltalið leita úrslita utan vallar sem ekki hafa fengist innan hans.  Málið hefur kostað okkur þónokkra fyrirhöfn enda erfitt að eiga við stórt félag og áhrifamikið sem hefur yfir að ráða her lögspekinga.  Við nutum hjálpar þess ágæta lögfræðings Sverris Sigurjónssonar hjá Land lögmönnum sem hefur verið okkur til ráðgjafar í máli þessu,“ segir Magnús.

Hann bætir við að óhætt sé að segja að viðbrögðin hafi verið öll á þann veg að fólk bæði innan og utan handknattleikshreyfingarinnar hafi furðað sig á kærunni.

„Handknattleiksdeild Selfoss vill alla daga leita leiða til að byggja hér upp sterk handboltalið, við viljum ekki taka þátt í lagaklækjum og málarekstri þótt við viðurkennum rétt allra til að leita réttar síns.  Við Selfyssingar stöndum uppi sem tvöfaldir sigurvegarar eftir þetta mál,“ sagði Magnús einnig.

Félagið fékk það óþvegið frá notendum Twitter sem sögðu kæruna meðal annars vera glórulausa, fáranlega og sorglegustu kæruna í sögu íslenskra íþrótta.

Auglýsing

læk

Instagram