Helga ræddi opinskátt um álfabikarinn og blæðingar á Snapchat: „Ekkert ógeðslegt við að fara á túr“

Helga María Ragnarsdóttir fjallaði opinskátt um reynslu sína af álfabikaranum og blæðingum á snappi hennar og systur hennar, Veganistur, í gær. Umfjöllunin vakti mikla athygli og fékk Helga María fjölmörg skilaboð þar sem henni var þakkað fyrir. Sjáðu nokkur snöpp í myndskeiði hér fyrir ofan. 

Hún segir greinilegt að margar konur séu í sömu sporum og hún, hafi byrjað að nota álfabikarinn en gefist upp á að nota hann eftir nokkur skipti af því að þær kunnu ekki nógu vel á hann.

Helga og systir hennar, Júlía Sif, eru báðar vegan. Þær stofnuðu Facebook-síðuna Veganistur árið 2014 og deildu þar myndum af mat, vegan-vörum sem voru í uppáhaldi hjá þeim og ýmsum pælingum. Nú eru þær líka með Instagram, Snapchat og vefsíðu þar sem þær deila efninu.

Helga keypti sér álfabikar þegar hún var um tvítugt. Hún segist hafa fundið út hvernig átti að setja bikarinn inn en fann aftur á móti fyrir bikarnum og hann byrjaði að leka. Í fyrra ákvað hún að reyna aftur en leitaði sér þá upplýsinga um hvernig best er að nota hann og lærði almennilega að nota hann. „Þetta hefur breytt lífi mínu mjög mikið,“ segir Helga.

Hún segist lengi hafa ætlað að ræða álfabikarinn á snapchat og gefa góð ráð um hvernig best er að nota hann. Lét hún verða af því í gær og voru viðtökurnar mjög góðar.  Með snöppunum fylgir hún eftir ítarlegri bloggfærslu um álfabikarinn sem hún deildi á vefsíðu systranna í sumar.

Helga segist hafa kynnst sjálfri sér betur og lært betur á líkama sinn eftir að hún fór að nota álfabikarinn fyrir ári síðan. „Það er nákvæmlega ekkert ógeðslegt við að fara á túr. Það er ekkert subbulegt eða neitt sem manni á að finnast skömmustulegt,“ segir Helga.

„Með því að nota bikarinn hef ég kynnst sjálfri mér og blæðingunum miklu betur,“ segir Helga og bendir á að hún viti núna hvort hún sé á miklum eða litlum blæðingum. Hún segist líka hafa náð miklu meiri tengingu við sjálfa sig sem konu. „Mér þykir í alvöru vænt um álfabikarinn minn,“ segir Helga.

Nokkur atriði sem Helga hefði viljað vita um álfabikarinn áður en hún byrjaði að nota hann

Á bikarnum er stilkur til þess að auðvelt sé að ná honum út. Stilkurinn er hinsvegar of langur fyrir margar konur og þá þarf að klippa hann til, maður á nefnilega ekki að finna neitt fyrir bikarnum þegar hann er kominn upp. Ég endaði á því að þurfa að klippa minn svolítið niður.  Ég mæli með því að klippa bara lítið í einu og finna hvað hentar manni.

Bikarinn getur færst lengra upp í leggöngin og því getur verið svolítið erfitt að ná honum úr.  Fyrst þegar ég lenti í þessu fékk ég vægt taugaáfall. Ég komst samt fljótt að því að maður þarf engar áhyggjur að hafa. Hann fer aldrei svo langt að ekki sé hægt að ná honum niður. Það er nóg að nota kviðvöðvana aðeins og ýta honum þannig niður þar til maður nær taki á honum. Þegar maður nær taki á bikarnum klípur maður um endann á honum til þess að hleypa inn lofti. Þannig er auðveldast að ná honum út.

Það þarf alls ekki að tæma bikarinn í hvert sinn sem maður fer á klósettið og maður getur vel haft hann yfir nótt án þess að hafa áhyggur af því að það sé óhollt eða hættulegt. Óhætt er að hafa bikarinn í allt að 12 klst í einu. Mælt er með því að tæma hann 2-4 sinnum á sólarhring og það fer alfarið eftir því hversu mikið blæðir hjá hverjum og einum hversu oft þarf að tæma hann.

Hér getur þú séð allan listann

Systurnar eru með vefsíðu. Þær eru líka á Snapchat: veganistur og á Facebook.

Auglýsing

læk

Instagram