Bandaríkjamaðurinn Noel Santillan er kominn aftur til landsins. Þetta kemur fram á Vísi. Noel varð landsfrægur í fyrra þegar hann endaði á Laugarvegi á Siglufirði þegar hann ætlaði á Laugaveg í Reykjavík. Í samtali við Vísi segist hann ætla ferðast með rútu í þetta skipti.
Sjá einnig: Hér er leiðin sem bandaríski ferðamaðurinn ók, fór á Laugarveg í staðinn fyrir Laugaveg
Saga Noels vakti gríðarlega athygli í fyrra enda mistökin sprenghlægileg. Hann átti bókað herbergi á Hótel Frón sem er við Laugaveg. Eftir að hafa keyrt í fimm klukkustundir bankaði hann upp á hjá Sigurlínu Káradóttur sem býr á Laugarvegi á Siglufirði og spurði hvort Hótel Frón væri í grenndinni.
Síðar kom í ljós að Hótel Frón er sagt standa við Laugarveg á fjölmörgum bókunarsíðum á internetinu. Laugarvegur á Siglufirði inniheldur „R“ sem Reykvíkingar kannast ekki við.
Nútíminn greindi frá þessari stafsetningarvillu, sem átti mögulega þátt í að Noel ók á Laugarveg á Siglufirði í staðinn fyrir Laugaveg í Reykjavík. Hafist var handa við að leiðrétta villuna á bókunarsíðunum en hótelstjórinn Gísli Úlfarsson vissi ekki til þess að þetta hafi nokkurn tíma gerst áður.
Enn síðar kom í ljós að Laugavegur var rangt stafaður á bókun Noels. Hann sýndi hótelbókunina frá vefnum Expedia í fréttum RÚV á sínum tíma. Þar stóð að Hótel Frón standi við Laugarveg en engin slík gata er í Reykjavík, þar er bara Laugavegur.
Noel átti eftir að lenda í fleiri ævintýrum og villtist aftur áður en ferðalaginu lauk. Hann var á leiðinni í Bláa lónið og studdist við GPS-tækið sem leiddi hann á rangan stað.
„Ég endaði í skrifstofuhúsnæði, gekk inn í fundarsal en þar var fundur og mér til furðu voru þar saman komnir starfsmenn Bláa lónsins,“ sagði Noel á Vísi. „Þegar ég knúði dyra horfðu þau á mig undrandi; hvað er þessi maður að vilja? Ég sagði þeim að ég væri að fara í Bláa lónið og þá spurðu þau mig hvort ég væri sá sem hefði ekið alla leið norður á land? Ég sagði þeim að svo væri og þá hlógu þau öll og vildu stilla sér upp á mynd með mér.“