Hundamynd íslenska hópsins gefin út

Jólamyndin The Three Dogateers kemur út á DVD í Bandaríkjunum á morgun. Á meðal framleiðanda myndarinnar eru útvarpsmaðurinn Andri Freyri Viðarsson, Georg Holm og Orri Páll Dýrason úr Sigur Rós og Sindri Már Finnbogason, framkvæmdastjóri og aðaleigandi Tix.is.

Stiklu myndarinnar má sjá hér fyrir neðan.

Dean Cain fer með aðalhlutverkið í myndinni en hann er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Superman í þáttunum Lois & Clark: The New Adventures of Superman sem sýndir voru á Stöð 2 á sínum tíma. Cain hefur einbeitt sér að fjölskyldumyndum síðustu ár.

Í framleiðendahópnum eru einnig Kári Sturluson, einn umboðsmanna Sigur Rósar og mæðginin Helga Olafsson og Kristján Olafsson. Þau bera öll titilinn „Executive Producer“.

Myndin fjallar um þrjá talandi hunda sem persóna Deans Cain á. Hann skilur þá óvart eftir heima og þeir enda á að lenda í miklu jólaævintýri.

Sindri Már sagði í viðtali í Fréttatímanum í sumar hvernig þetta kom allt til:

Ég var í fríi í Los Angeles hjá Kristjáni og okkur fannst tilvalið að fara út í kvikmyndabransann. Við fórum á fund með leikstjóranum, Jesse Baget, en hann gerir aðallega „low budget“ hryllingsmyndir. Hann var með þrjár hugmyndir að hryllingsmyndum sem okkur leist ekki nógu vel á en nefndi svo þessa hundamynd og við sögðum já um leið. Hann ætlaði að gera myndina fyrir lítinn pening en við stungum upp á að við myndum redda aðeins meiri pening og fá þekkt nafn í aðalhlutverkið.

Í kjölfarið á útgáfu myndarinnar í Bandaríkjunum á morgun fer hún á Netflix og verður þannig aðgengileg Íslendingum sem nýta sér þjónustuna í gegnum krókaleiðir.

Auglýsing

læk

Instagram