Auglýsing

Inga Sæland segir viðbrögð Sigmundar sorgleg: „Hann kemur með sínar samsæriskenningar og firrar sig allri ábyrgð eins og venjulega“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, tjáði sig um ummæli sem þingmenn úr Miðflokkinum og Flokki fólksins létu falla á bar í miðbæ Reykjavíkur og birtust í fjölmiðlum í gær í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Á upptökum sem náðust af þingmönnunum  heyrast þeir meðal annars tala með niðrandi hætti um kvenkyns stjórnmálamenn í samtölum sín á milli.  Inga Sæland er ein þeirra sem talað er um.

Inga segir að stjórn Flokks fólksins komi saman í dag og ræði upptökurnar. Hún segir málið grafalvarlegt og að það þurfi að taka á því. Þá segir hún að viðbrögð Sigmundar Davíðs, formanns Miðflokksins, séu sorgleg en Sigmundur segir að það alvarlegasta í málinu sé það ef raunin sé orðin sú að á Íslandi sé farið að stunda hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna.

„Hann kemur með sínar samsæriskenningar og firrar sig allri ábyrgð eins og venjulega. Hvort sem hann flytur hér bunka í skattaskjól af peningum eða kemur fram þarna þá er það öðrum að kenna,“ segir Inga.

Þá segist hún hafa fyrirgefið Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins en hann hefur beðist afsökunar á ummælum sínum í upptökunni. Hún segist hafa fyrirgefið honum svo framarlega sem að hann meinti það sem hann væri að segja í afsökunarbeiðninni. Hún segist þá treysta Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni, þingmönnum Flokks fólksins, sem voru viðstaddir samræðurnar.

Inga er hinsvegar harðorð í garð Miðflokksins og segir að hann megi éta það sem úti frýs.

„Ég get alveg sagt það aftur að þeir mega éta mín vegna það sem úti frýs. Við erum ekki að fara í eina sæng með Miðflokknum að einu eða neinu leyti. Þeir eru náttúrulega bara stjórnarandstöðuflokkur eins og við og það er náttúrulega bara þannig að það virðist vera mismunandi óvægið hvernig menn reyna að slá sig til riddara og kaupa sér atkvæði,“ segir hún.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing