Ísey skyr ódýrara í Costco í Frakklandi en á Íslandi

Íslenska Ísey skyrið er ódýrara í Costco í Frakklandi en á Íslandi. Á þetta bendir Ásmundur Valur Sveinsson í færslu sem hefur vakið talsverða athygli á Facebook. Heilt kíló af skyri kostar þar 3,39 evrur, eða rúmlega 400 krónur. Hér á landi kostar hálft kíló í kringum 350 krónur.

Ásmundur segir í færslu sinni að það hafi komið honum rækilega á óvart að sjá að hann borgi minna fyrir skyrið í Frakklandi en á heimavelli og spyr: „Eru íslenskir skattgreiðendur að niðurgreiða skyr í öðrum löndum eða eru þið að misnota einokunarstöðu ykkar a Íslandi?“

Sunna Marteinsdóttir hjá Mjólkursamsölunni svarar Ásmundi og segir að öll mjólk sem framleidd er umfram neyslu innanlands sé mjólkuriðnaðinum skylt að flytja út samkvæmt lögum. „Sú mjólk er þó ekki nóg til þess að framleiða allt það íslenska skyr sem aðrar þjóðir vilja borða,“ segir hún.

MS hefur því gert samninga við fyrirtæki erlendis þar sem framleitt er skyr eftir íslenskri uppskrift og með íslenskum skyrgerlum.

Sunna segir að skyrið sem selt er í Costco í Frakklandi sé framleitt í Danmörku af samstarfsfyrirtæki MS. „Við seljum hana svo til Costco UK sem flytur þetta í sínar verslanir í Evrópu. Þetta má sjá á dósunum t.d eins og þeirri sem þú sást. Verðið á því skyri tengist þannig ekki íslenskri mjólk né innlendum markaði.“

Sunna fullyrðir að skyrið sem er selt af MS eða samstarfsaðilum fyrirtækisins sé á svipuðu verði og skyr á Íslandi eða dýrara. „Sem dæmi kostar íslensk skyrdós út úr verslun í Sviss um 280 krónur.“

Auglýsing

læk

Instagram