Isidora og Dusan fengu dvalarleyfi á Íslandi en ekki ársgamall sonur þeirra

Eins árs drengur sem fæddist á Íslandi fær ekki dvalarleyfi hér á landi. Foreldrar hans sem eru námsmenn hafa dvalarleyfi hér. Útlendingastofnun má ekki vísa drengnum úr landi þar sem hann fæddist hér en hann nýtur ekki sömu réttinda og önnur börn. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.

Foreldrar hans komu saman til landsins árið 2015 og stunda háskólanám hér. Þau eignuðust son sinn í nóvember á síðasta ári. Útlendingastofnun hafði þá greint Isidoru frá því að réttindi barna fylgdu réttindum foreldra. Þau sóttu um dvalarleyfi í janúar en fengu ekki svar fyrr en í síðustu viku. Útlendingastofnun hefur 90 daga til að svara umsóknum um dvalarleyfi en synjunin kom tíu mánuðum eftir að umsóknin barst.

Í úrskurði Útlendingastofnunnar segir að foreldrar geti snúið aftur til heimalandsins þar sem staða hans yrði öruggari og þar geti hann fengið öll sín réttindi. Um sé að ræða barn tveggja einstaklinga sem hafa dvalarleyfi hér en það veit ekki rétt til fjölskyldusameiningar.

Isidora segir í Fréttablaðinu að úrskurðurinn sé ósanngjarn og þau ætli sér að kæra málið til kærunefndar útlendingamála. Nánar er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag.

Auglýsing

læk

Instagram