„Ísland er orðið dýrasti ferðamannastaður í heimi”

Í nýrri grein á ferðavefnum Traveller er fjallað um ferðaþjónustu á Íslandi. Þar segir að Íslendingar treysti á HM sem vítamínsprautu fyrir iðnaðinn sem er sagður vera að staðna.

Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í viðtali við Traveller að Ísland geti nýtt sér athyglina sem við fáum í gegnum HM.

„Ísland er að stíga á stóra sviðið, við erum í dauðafæri til þess að nýta okkur þessa athygli á jákvæðan hátt.”

Herferðin #TeamIceland sem Íslandsstofa setti af stað í vor er hluti af því að nýta HM til þess að efla ferðaþjónustu í landinu en þar eru fótboltaáhugamenn um allan heim hvattir til þess að styðja við Ísland.

Sjá einnig: Steindi Jr. fær fólk í Argentínu til þess að hvetja Ísland áfram í nýju myndbandi

Í grein Traveller er talað um að ferðamannaiðnaðurinn hafi átt stóran þátt í því að rétta efnahag Íslands af eftir efnahagshrunið en nú sé eftirspurnin eftur flugum til landsins að minnka. Þá er talað um að styrking krónunnar hafi gert Ísland að dýrasta ferðamannastað í heimi með þeim afleiðingum að ferðamenn forðist landið frekar.

„Ferðamönnum hefur fækkað og ferðaþjónustufyrirtækin eru farin að finna fyrir samdrætti,“ segir Skapti Örn.

Einnig er rætt við Þráinn Lárusson, eiganda Hótel Hallormsstaðar en hann hefur ekki áhyggjur. „Ég hef verið í þessum bransa í 40 ár og ég er jákvæður. Ég sé engin merki um neitt hrun, iðnaðurinn er bara í endurmótun.”

Auglýsing

læk

Instagram