Íslensk hjón unnu 24 milljónir í lottó í Noregi

„Mamma öskraði í símann þegar ég sagði henni þetta. Það eru að sjálfsögðu allir ánægðir,“ segir hin þrítuga Kristjana Jónasdóttir, sem vann 1,3 milljónir norskar krónur, eða um 24 milljónir íslenskar, í norska lottóleiknum Jóker í kvöld.

Kristjana og eiginmaður hennar, Pétur Bjarnason, fluttu til Noregs árið 2009. Þau búa í Karmøy ásamt þremur börnum sínum, átta, sex og þriggja ára.

Í viðtali við dagblaðið í Haugesund segjast þau hafa verið fórnarlömb kreppunnar á Íslandi og flutt til Noregs í leit að betra lífi. „Þetta gæti ekki gerst á betri tíma. Við erum að fara að fjárfesta í húsnæði,“ segir Kristjana.

Fjölskyldan hefur nokkrum sinnum áður tekið þátt í Jókernum og unnið litla vinninga, 6-700 norskar krónur en aldrei neitt í líkingu við stóra pottinn. Spurð hvernig það er að vera orðin milljónamæringur segir Kristjana að tilfinningin sé undarleg.

Auglýsing

læk

Instagram