Karitas ætlar að hamra járnið á meðan það er heitt eftir sigurinn í The Voice

Karitas Harpa Davíðsdóttir er sigurvegarinn í annarri þáttaröð af The Voice sem lauk á dögunum. Hún segist ætla að hamra járnið á meðan það er heitt og vonar að sigurinn í keppninni verði stökkpallur fyrir feril hennar í tónlistarbransanum.

Karitas segir í samtali við Nútímann að draumurinn sé að koma út efni, hvort sem það er frumsamið eða ekki. Hún segir dagana eftir sigurinn ekki gjörólíka öðrum dögum. „Ég er búin að vera mikið á fundum eftir keppnina þar sem við erum að skipuleggja næstu skref,“ segir hún.

Lífið er í rauninni ekkert búið að breytast en á sama tíma er það búið að breytast fullt. Ef það meikar sens.

Spurð út í sigurlaunin segist Karitas ekki vera komin með það á hreint. „Ég veit að ég fæ afnot af bíl í eitt ár sem og frítt bensín. Svo fæ ég tíma í Stúdíó Sýrlandi sem ég ætla að reyna nýta vel,“ segir hún.

Karitas segist ekki ætla að einblína á ákveðin stíl í tónlistinni og segist vera spennt fyrir því að finna sig í þessum tónlistarheiminum. „Mér þætti gaman að syngja með Sölku. Það kemur kannski ekki beint á óvart. Eftir keppnina erum við orðnar góðar vinkonur,“ segir hún létt.

Karitas segir að Voice hafi tekið töluverðan tíma frá henni og Ómari, syni hennar, og því ætli hún að nota næstu daga í að vera með honum. „Þetta hafa verið tíðar ferðir frá heimilinu mínu á Selfossi og til Keflavíkur þar sem tekið var upp og æft.“

Horfðu á Karitas flytja lagið My Love með Sia hér fyrir ofan.

Auglýsing

læk

Instagram