Karl Berndsen afskaplega glaður, lífið allt of stutt til að eyða því í rifildi og þras

Hárgreiðslu- og förðunarmeistarinn Karl Berndsen hefur náð samkomulagi við forsvarsmenn Beautybar.is og gengur sáttur frá borði en deilur höfðu staðið yfir um nafnið. Þetta kemur fram á nýrri Facebook-síðu Karls.

Karl rak áður Beauty Bar en greint var frá því árið 2013 að hann væri að berjast við alvarleg veikindi. Í fyrstu var ranglega talið að um heilaæxli væri að ræða en síðar kom í ljós að hann var með krabbamein í eitlum. Eftir ellefu heilaaðgerðir, lyfjameðferð og fleira hefur tekist að drepa meinið en Vísir greindi frá því á dögunum að hann væri allur að koma til.

Karl segist vera afskaplega glaður og ánægður í færslu sinni. „Lífið er allt of stutt til að vera eyða því í rifildi og þras. Samkomulag hefur náðst og allir glaðir. Ég geng sáttur frá borði og nú hefst nýr kafli!“

Vegna afnota annarra af beautybar.is sem staðið hafa um tíma er beautybar.is nú í mínum huga aðeins orð eða orðasamband. Beautybar.is var áður ekki bara innantóm orð heldur lýsandi einkenni fyrir okkar frábæra árangur fyrir mig og ykkur, sem urðu mér samferða, bæði sem samstarfsfólk og viðskiptavinir.

Hann segir að Beautybar.is með Karli Berndsen sé í fortíðinni en karlberndsen.is sé kominn til að vera. „Ég óska þeim sem hafa beautybar.is góðs gengis og innilega til hamingju og megi rekstur þeirra ganga vel. Það er mín einlæg ósk,“ segir hann.

„Ef skrif mín hafa sært einhverja vil ég biðjast velvirðingar á þeim orðum og samlíkingum sem ég hafði frammi!“

Smelltu hér til að skoða síðu Karls en þar hyggst hann fræða og skemmta með skrifum um það sem hann þekkir best. „Kæru vinir allt er gott sem endar vel og við erum rétt að byrja,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram