Kirkjuþjónn tengir þátttakendur AA funda við þjófnaði, segir fólk „af ýmsu sauðahúsi“ mæta á fundina

Kirkjuþjónn og staðarhaldari Hafnarfjarðarkirkju telur hugsanlegt að þátttakendur í AA-starfi í Góðtemplarahúsinu í Hafnarfirði hafi stolið pels, úlpu og veski úr kirkjunni síðustu mánuði.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Þar kemur fram að pels og úlpu hafi verið stolið úr fatahengi kirkjunnar nýverið á meðan erfidrykkja fór fram í safnaðarheimili kirkjunnar.

Pelsinn var brotinn saman og lagður á hattahillu fyrir ofan fataslána svo ólíklegt verður að teljast að hann hafi verið tekinn í misgripum fyrir aðra flík.

Rætt er við Ottó R. Jónsson, staðarhaldara í Hafnarfjarðarkirkju, í frétt Morgunblaðsins.

Hann segir að veski hafi verið stolið úr safnaðarheimili kirkjunnar í október þegar kistulagning var í þann mund að hefjast.

Þá stóð Ottó ungan mann að verki í nóvember á skrifstofu sinni en maðurinn var að róta í veski Ottós þegar hann kom að honum.

Góðtemplarahúsið í Hafnarfirði er við hlið kirkjunnar og þar eru haldnir AA fundir. Ottó segir að „fólk af ýmsu sauðahúsi“ mæti á fundina og vill hann tengja atvikin sem nefnd eru hér að ofan við „óprúttna aðila“ sem eiga erindi þangað.

Einnig er rætt við Helga Gunnarsson, lögreglufulltrúa í Hafnarfirði í fréttinni. Hann segist ekki setja samasemmerki þarna á milli, líkt og Ottó og bendir á að kirkjan sé á fjölförnum stað.

Auglýsing

læk

Instagram