Laufey Þóra mátti ekki koma inn á American Bar, segist hafa verið mismunað vegna útlits

Laufeyju Þóru Borgþórsdóttur var meinaður aðgangur að American Bar síðustu helgi en þar ætlaði hún að hitta kærustuna sína sem beið á eftir henni inni á staðnum.

Hún greindi frá atvikinu á Facebook og gaf Nútímanum leyfi til að skrifa upp úr færslunni. Í færslunni segir hún að frétt um að Mexíkana hafi verið mismunað þegar hann ætlaði inn á staðinn hafi hvatt hana til að segja frá hennar atviki.

Þetta föstudagskvöld fór hún í röðina og voru þrír til fjórir á undan henni.

Ég bíð róleg og tilbúin með skilríkin mín. Tveir dyraverðir eru í dyrunum. Annar er upptekinn að skoða skilríki svo að hinn bendir mér á að koma til sín sem ég og geri. Þegar ég er að rétta honum skilríkin mín er tekið í jakkann minn og mér hent út fyrir keðjuna. Þar er hinn dyravörðurinn að verki og hann segir við mig að ég sé sko ekki að fara inn.

Laufey Þóra segist þrisvar áður hafa farið inn á staðinn, aldrei séð dyravörðinn og aldrei komist í kast við neinn.

„Ég hélt að hann hefði ruglast á mér og einhverjum öðrum vildi svo ég spurði hann hvort hann vildi ekki líta á skilríkin fyrst, þar sem ég væri 21 árs og ekki að reyna að blekkja neinn, “ skrifar Laufey Þóra. Hún segir dyravörðinn hafa þvertekið fyrir það og hreytt í sig að fara strax, hún væri ekki á leiðinni inn á staðinn.

Laufey Þóra hélt áfram að reyna að fá öryggisverðina til að hleypa sér inn. Allt kom fyrir ekki og segir hún yfirdyravörðinn einnig hafa hent sér fyrir utan keðjuna.

„Ég streittist á móti því mér fannst ekki réttlátt að hann mætti beita mig þessari meðferð þar sem ég hafði ekkert gert til þess að eiga hana skilið. Yfirdyravörðurinn hló að mér og sagði sko að ég væri ekki í ástandi til þess að fara þarna inn, hágrátandi,“ skrifar Laufey Þóra.

Hún segir einnig í færslunni að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hún lendir í mismunun vegna útlits síns á skemmtistöðum. Í einu tilviki var hún í snyrtilega skyrtu og buxur en fékk ekki að fara inn á skemmtistað þar sem dyravörðurinn var á þeirri skoðun að hún ætti að vera í kjól, eins og hinar stelpurnar.

Hermann Svendsen, einn af eigendum American Bar, segir í samtali við Nútímann að Laufey Þóra hafi lent í orðaskaki við dyraverði. Það hafi endað með því að vaktstjóri staðarins hafi gengið á milli, boðið henni inn og boðið henni og kærustu hennar upp á drykki. Hann segist hafa heyrt í Laufeyju Þóru sjálfur og beðist afsökunar á framkomu dyravarðanna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fregnir berast af því að fólki sé ekki hleypt inn á American Bar. Áslaugu Örnu Sigurdórsdóttur var ekki hleypt inn á staðinn í mars árið 2015 og fékk engar útskýringar á því. Þá var manni frá Mexíkó ekki hleypt inn nýlega og var það samkvæmt dyraverði vegna þjóðernis hans.

Auglýsing

læk

Instagram