Þingholtsstræti lokað vegna deilna á Caruso

Lögreglubíl hefur verið lagt fyrir Þingholtsstræti og götunni þar með lokað. Þar standa yfir deilur eigenda húsnæðisins sem hýsir veitingastaðinn Caruso og rekstraraðila staðarins.

Starfsfólk veitingastaðarins Caruso safnaðist saman fyrir utan staðinn á ellefta tímanum í morgun samkvæmt Vísi og þegar Nútímann bar að garði var hluti fólksins enn þar fyrir utan. Fólkið sótti í morgun eigur sínar og önnur verðmæti í eigu fyrirtækisins og starfsmanna, sem eigandi hússins læsti inni.

Lögreglan er á svæðinu. Ásamt því að loka Þingholtsstrætinu með því að leggja fyrir götuna var lögreglubíl lagt á horni Ingólfsstrætis og Laugavegs í hádeginu. Í frétt Vísis kemur fram að lögreglumenn séu inni á staðnum að ræða við húseigandann Jón Ragnarsson og Jose Garcia, eiganda Caruso.

Árni Hjartarson, kokkur á Caruso, var ómyrkur í máli í samtali við Vísi í morgun og sagði aðgerðir eiganda hússins ótrúlegar:

Guð má vita hvað er í gangi í hausnum á þeim, þeir vaða inn í annarra manna rekstur og virðast bara, miðað við þeirra yfirlýsingar, að ætla að taka þetta yfir. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum þeim dettur í hug að þeir komist upp með það.

Málið snýst um deilu húseigenda og veitingamannsins um leigusamning á húsnæðinu. Samkvæmt Vísi vill húseigandinn vill hækka leiguna sem nú er 1,5 milljónir á mánuði í 3,5 milljónir.

Málið rataði í fjölmiðla eftir að eigendur húsnæðisins komu og skiptu um skrár á öllum hurðum og skelltu í lás í vikunni.

Auglýsing

læk

Instagram