Auglýsing

Madurangika kom til Íslands frá Sri Lanka: „Mér finnst mikið frelsi á Íslandi og fólk er lítið að spá í það hvað þú sért að hugsa eða bardúsa“

Madurangika Premasiri er yfirþjónn á Hótel Örk, hún hefur starfað á hótelinu síðan hún flutti til Íslands frá Sri Lanka árið 2009. Hún segir frá starfi sínu og lífinu á Íslandi í viðtalsröðinni Fólkið í Eflingu.

„Ég vinn á tólf tíma vöktum frá tíu til tíu. Vinnudagurinn fer rólega af stað, ég undirbý komu hópa sem koma í hús seinni partinn. Á veturna er alltaf minna að gera, en það er að breytast með japönsku hópunum sem koma í norðurljósaferðirnar. Mín vinna getur verið aðeins of róleg á köflum, það er það eina sem fær mig stundum til þess að hugsa mig til hreyfings og prófa annað starf. Ég þarf að standa vaktina hvort sem það er lítið eða mikið að gera, þannig virkar þjónastarfið.“

Ömmusystir Madurangika var fyrsti fjölskyldumeðlimurinn hennar sem kom til Íslands. Í kjölfarið fluttist fjölskyldan öll hingað til lands en Madurangika kom á eftir þeim þar sem hún vildi klára námið sitt á Sri Lanka. Þegar hún var tilbúin að flytja var mun erfiðara að fá landvistarleyfi fyrir fólk frá Sri Lanka.

„Ég var komin með fjölskyldu, dóttur og hún átti föður og þau voru fyrirstaða og ekki til að auðvelda mér að fá leyfi til að koma til landsins.“

Móðir hennar þekkti góðan lögfræðing á Íslandi sem hjálpaði þeim í gegnum ferlið að kostnaðarlausu. Á endanum fékk hún landvistarleyfi ásamt eiginmanni sínum og börnum.

Madurangika segir að hún vilji sjá dóttur sína lifa og dafna í íslensku samfélagi. Hún er ellefu ára gömul og æfir fótbolta og sund í Hveragerði. Madunrangika segist finna fyrir miklu frelsi á Íslandi og hún óski þess að dóttir hennar alist upp við þetta frelsi.

„Gallinn á samfélaginu sem ég kem frá er að allir eru með nefið ofan í hvers manns koppi. Það er erfitt að vera frjáls og fara sínar eigin leiðir. Í Sri Lanka er krafa um að fólk lifi í þröngum kassa, það eru svo miklir fordómar og ef þú ferð út fyrir kassann þá fer allt á annan endann.“

Hún segir þó að sjálf muni hún líklega enda á Sri Lanka sem gömul kona.

„Ég er búddisti og ég sakna athafna og helgistaða í kringum búddismann. Í bænum mínum á Sri Lanka er hof þar sem ég get stungið mér inn hvenær sem ég vil í dagsins önn og róað hugann, ég sakna þess í lífi mínu á Íslandi að geta ekki gert það.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing