Magnús Hlynur gerir þátt með syni sínum

Fjölmiðlamaðurinn Magnús Hlynur Hreiðarsson og Fannar Freyr, sonur hans, verða með nýjan þátt á Stöð 2 í sumar. Þátturinn kallast Feðgar á ferð og Magnús segir þá ætla að þefa upp skemmtilegasta og jákvæða fólkið á Suðurlandi og Suðurnesjunum.

„Fólk sem hefur frá skemmtilegu að segja, hlær mikið og hefur gaman af lífinu, ungir sem aldnir, konur og karlar,“ segir hann.

Samstarf feðganna hófst að sögn Magnúsar fyrir mörgum árum. „Já, við höfum unnið að einhverjum verkefnum saman, ég hef til dæmis kennt Fannari Frey að brjóta saman þvott, hengja út á snúru og búa um rúmið sitt,“ segir Magnús léttur.

Þá fór ég með hann á nokkur söngnámskeið í Söngskóla Siggu Beinteins og Maríu Bjarkar og fylgdi honum á íþróttamót og þess háttar. Reyndi að koma honum í sveit einu sinni, en hann kom heim eftir viku, þoldi ekki kúalyktina og líkaði ekki vel við hundana í sveitinni.

Magnús segir þá feðga nokkuð ólíka. „Hann er meira svona „miðbæjarmaður“ en ég „sveitamaður“,“ segir hann.

„Þá höfum við unnið nokkur skemmtimyndbönd við hin ýmsu tækifæri, sem hafa vakið mikla athygli. Við gerðum til dæmis flott grínmyndband af Aldísi Hafseinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði en hún varð 50 ára daginn. Það vakti gríðarlega athygli í mörghundruð manna veislu á Hótel Örk.“

En er nógu mikið af skemmtilegu fólki á svæðinu til að búa til átta þætti?

„Já, já, kjánaleg spurning.is, við gætum gert 100 svona þætti, það er allstaðar skemmtilegt fólk sem sér það jákvæða í lífinu og tækifæri í hverju horni, Við höfum nú ekki áhyggjur af því, þetta verður frábært, við lofum því,“ segir Magnús Hlynur.

Auglýsing

læk

Instagram