Mistök hjá Netflix urðu til þess að heimildarmyndin um Guðmundar- og Geirfinnsmálið fór í umferð

Heimildarmyndin Out of Thin Air, sem fjallar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, fór fyrir mistök inn á Netflix í stutta stund mánudaginn 3. júlí. Myndin er komin í umferð á ólöglegum niðurhalssíðum en frumsýningin á Íslandi verður 9. ágúst í Bíó paradís. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Örskýring: Nýjar vísbendingar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sanna sakleysi sakborninga

Margrét Jónasdóttir, einn af framleiðendum myndarinnar, segir í samtali við RÚV að handvömm innanhúss hjá Netflix hafi orðið til þess að myndin fór óvart í loftið. Strax var farið í að kippa myndinni úr umferð. „Ég veit ekki hversu víða hún fór en ég hef ekkert verið að eltast við það,“ segir hún.

Ég var stödd í matarboði á sunnudag, eftirmiðdag, þar sem einn af samstarfsmönnum mínum úr verkefninu sagðist hafa séð hana á Netflix. Ég þrætti fyrir það, því að í raun átti hún ekki að fara í loftið fyrr en í lok september

Myndin var í stutta stund á Netflix á Íslandi og í Bandaríkjunum. Óprútnir aðilar settu hana í kjölfarið inn á Youtube en búið var að horfa á hana 1.500 sinnum þegar Margréti tókst að láta taka hana úr umferð þar.

Myndin verður sýnd á RÚV 4. september. Hún verður svo aðgengileg á Netflix á Íslandi og víðar.

Hér fyrir neðan má sjá stiklu myndarinnar

Auglýsing

læk

Instagram