Notar yfirdráttinn í núðlur

Hagfræðineminn Ólafur Kjaran Árnason er búsettur í Kaupmannahöfn hefur og hefur þaðan margar sögur að segja. Við fengum að skyggnast inn í námsmannalíf hans í stórborginni.

Hvað er það besta við að vera námsmaður í Kaupmannahöfn?

Það er bara svo fyndið. Hver einasti maður sem þú hittir úti á götu er Ari Eldjárn að gera grín að því hvað Danir eru fáránlegir, nema þeir fatta það ekki því þeir eru svo vanir þessu sjálfir. Og Danir gjörsamlega elska grínið mitt, en þeir skilja ekki hvað þetta er ótrúlega simpelt – ég er bara að herma eftir þeim! Tala ensku með dönskum hreim og segja skidehitt og skideþetta.

Burtséð frá því öllu er Kaupmannahöfn ótrúlega falleg borg. Mörg spennandi hverfi og mikið að gerast.

Hvað er verst?

Jaaa, maður finnur svo sem fyrir því að allir þessir dönsku krakkar fá hátt í 200 þúsund íslenskar á reikninginn sinn frá ríkinu í hverjum mánuði.

Ég er nú aðallega að nota yfirdráttinn minn í núðlur og ýmiskonar lauk. En það má auðvitað gera ýmislegt við lauk – til dæmis karamelísera hann.

Hvað gerirðu þegar þú lyftir þér upp?

Danskurinn er mjög góður í að lyfta sér upp. Til dæmis eru föstudagar alls ekki virkir dagar hérna –  það eru allir komnir í einhvern dans strax upp úr hádegi.  

Rallið svolítið öðruvísi hér en heima vegna þess hvað þetta er tengt kollegíunum og skólunum. Skemmtilegustu partí sem ég hef farið í hingað til hafa verið sjúklega metnaðarfull þemapartí á kollegíum. En ef ég á að nefna uppáhaldsbar þá er það bar sem heitir Mikeller og er bæði á Vesterbro og Nørrebro. Þeir eru með hátt í fimmtíu tegundir af bjór á dælu sem er borinn fram í 0,2 lítra glösum og þeir leyfa þér að smakka eins og þér sýnist þar til þú dettur á besta bjór sem þú hefur smakkað.

Fyrir þá sem eru í all-in djammleiðangri get ég svo mælt með Kødbyen á Vesterbro sem er kjötiðnaðarhverfi turned djammhverfi.

 
Mikkeller á Vesterbrogade

Untitled-13

Hvers saknarðu við Reykjavík?

Á veturna er Reykjavík eins og svartur hellir nema það er stormur inni í hellinum. Ég sakna þess ekkert svakalega. En vinir mínir búa auðvitað flestir í Reykjavík og ég sakna þeirra mjög.

Svo fannst mér líka mjög erfitt um daginn þegar Gísli Pálmi var með tónleika í JÖR á fimmtudegi, Dolly á föstudegi og Þjóðleikhúskjallaranum á laugardegi. Þá var frekar trist að búa í Kaupmannahöfn.

Hvað er best að borða í Kaupmannahöfn?

Ég er kannski ekki rétti maðurinn til að svara þessari spurningu þó ég eigi raunar pantað borð á Noma í janúar 2020. En ég bý á Nørrebro, hrikalega flottu og lifandi hverfi þar sem örugglega hátt í helmingur íbúa eru innflytjendur, sem veldur því að hér er allt morandi í spennandi veitingastöðum frá öllum heims hornum.

Það er til dæmis mjög fjölskrúðug kebabmenning við Nørrebrogade og áhugamenn um kebab ættu að geta upplifað einhvern drøm hérna fyrir litlar 500 krónur íslenskar.

Niðurstöður hinnar árlegu shawerma keppni í Kaupmannahöfn:

1. plads – Take and Eat: Nørrebrogade 30
2. plads – Dürüm bar: Nørrebrogade 195
3. plads – Ahaaa: Nørrebrogade 51 

Hvað kom þér mest á óvart við Kaupmannahöfn?

Aðallega hvað stereótýpan er raunveruleg. Allt sem stóð í dönskubókunum er satt í öðru veldi. En það kemur mér eiginlega alltaf jafnmikið á óvart þegar ég sé hvað þeir drekka bjórinn sinn áreynslulaust. Drekka ekki, anda þessu bara oní sig.

Ólafur Kjaran tístir um lífið í Kaupmannahöfn. 

Auglýsing

læk

Instagram