Nýja húðflúrið hans Braga Páls er algjört djók

Bragi Páll Sigurðsson, skáld og pistlahöfundur á Stundinni, er búinn að fá sér nýtt húðflúr. Húðflúrið er djók, eins og myndin sýnir og Bragi segir í samtali við Nútímann að hann hafi fengið hugmyndina fyrir aðeins tveimur dögum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem húðflúr Braga vekur athygli. Þegar lekamálið stóð sem hæst fékk hann sér setninguna: „Hanna Birna segðu af þér“ á hægra lærið. Ósk hans rættist svo nokkrum mánuðum síðar.

„Ég var sko í mörg ár að reyna að fá mér merkingarþrungin og „kúl“ tattú,“ segir Bragi Páll.

Svo þegar nokkur ár höfðu liðið þá kom í ljós að öll tattúin mín voru grín, óvart, en vissulega grín sem minnisvarði um ákveðna tíma. Upp frá því hef ég ákveðið að reyna ekki. Ef mér dettur eitthvað fyndið tattú í hug að láta það bara gerast frekar fljótlega.

Spurður hvort það hafi einhverja eftirsjá í för með sér segir Bragi að það sé alls ekki svo.

„Líkamar okkar eru drasl og þeir eru að verða meira drasl með hverjum deginum — af hverju ekki að skreyta þá og hafa soldið skemmtilega?“ segir hann.

„Margir festast í því að vera með vöðva eða stóran rass og halda að líkaminn sé heilagt musteri en ef hann er musteri þá verður maður að krassa á hann líka. Eftir 60 ár þegar þetta tattú verður að mold og ég tek mér búsetu í annarri lífveru mun ég ekki heldur sjá eftir neinu, ekkert frekar en ég sé eftir því að hafa sett upp mynd í íbúð sem ég var að leigja fyrir níu árum.“

Bragi segir fólk sem óttast að fá sér húðflúr sleppa því vegna þess að þau eru óafturkræf.

„En ég er ekki hræddur, og ég er ekki hræddur af því þetta er allt bara leikur, við erum bara í einhverjum leik, og í leiknum mínum læt ég sérfræðinga setja blek sem myndar kjaftæði undir húðina mína,“ segir hann.

„Í vestrænu samfélagi skiptir svo miklu máli að tattú séu þrungin merkingu, en við búum á sjúklega póstmódernískum tímum, svo afhverju ættu tattú að hafa merkingu frekar en nokkuð annað?“

Auglýsing

læk

Instagram