Nýskilinn bað Friðrik Dór um að sitja fyrir fyrrverandi eiginkonunni og syngja Hlið við Hlið

Tónlistarmaðurinn Friðrik Dór var einu sinni beðinn um að hjálpa til við að sigra aftur hjarta eiginkonu manns sem var nýskilinn. Þetta kemur fram í viðtali við Friðrik í götublaðinu SKE.

Friðrik segir að þetta hafi verið mjög skrýtið símtal. „Það hringdi í mig maður, kannski var hann á slæmum stað í lífinu, ég veit það ekki. Hann var nýskilinn við barnsmóður sína. Hlið við hlið var þeirra lag. Hún vildi ekki tala við hann,“ segir hann í SKE.

Hann spurði hvort að ég gæti mætt með gítarinn og setið fyrir henni þegar hún kæmi að sækja börnin í leikskólann – og byrjað að spila Hlið við hlið þegar hún mætti á staðinn. Hann var alveg sannfærður um að þetta myndi hjálpa honum í þessari baráttu.

Friðrik segir að hann hafi ekki getað gert þetta. „Ég sannfærði hann um að þetta myndi ekki hafa tilætluð áhrif. Ég veit ekki hvort að þetta hafi verið grín,“ segir hann.

„Maður veit stundum ekki ef menn eru að grínast eða ekki. En ef það er ekki um grín að ræða þá vill maður helst ekki bregðast við með því að segja „heyrðu, gamli: hættu þessu!““

Sjá einnig: Friðrik Dór kom aðdáanda númer eitt á óvart: Viðbrögðin voru stórkostleg

Friðrik Dór segir einnig frá því í SKE að hann lendi reglulega í því að fjórtán ára stelpa fari að gráta þegar hún sér hann.

„Það er mjög óþægilegt. En það eldist líklega af henni. Hún hristist og fer að gráta. En þetta er hálf krúttlegt. Hún er þannig við mig og svo er vinkona hennar þannig við Jón. Það er eins og þær hefðu ákveðið: „Þú verður aðdáandi Jóns og ég Frikka.“ Svo er bara allt sett af stað þegar þær sjá okkur.“

Auglýsing

læk

Instagram